Haukur Andri Haraldsson, yngri bróðir Hákonar Arnar, var í byrjunarliðinu þegar U21 landsliðið náði í langþráðan sigur í undankeppni fyrir EM.
Lestu um leikinn: Ísland U21 2 - 1 Lúxemborg U21
Haukur Andri átti flottan leik þar sem hann gaf stoðsendingu og skapaði færi auk þess að eiga hættulega marktilraun.
„Við vorum sterkari aðilinn í dag og verðskulduðum sigurinn. Við fengum nóg af færum og hefðum getað skorað fleiri en maður er mjög sáttur með sigurinn," sagði Haukur eftir 2-1 sigur á Lúxemborg.
„Ef við ætlum að ná okkar markmiðum þá var ekkert annað í stöðunni en að vinna þennan leik. Við sýndum í dag hvers við erum megnugir og ef við spilum þá náum við alltaf þessu markmiði sem er annað sætið og að komast áfram. Við höfum verið að spila mjög góðan bolta en verið óheppnir með úrslit."
Ísland er meðal annars í riðli með Frakklandi og Sviss en strákarnir byrjuðu undankeppnina á því að tapa heimaleik gegn Færeyjum. Þeir gerðu svo jafntefli í Eistlandi og Sviss áður en þeir náðu í sinn fyrsta sigur loksins í dag.
„Við sáum það alveg í dag að þeir eru góðir í fótbolta þessir gæjar og seinni leikurinn verður erfiður. Ef við náum þrem punktum í Lúxemborg þá erum við búnir að koma okkur í mjög góða stöðu. Við ætlum okkur ekkert annað en sigur."
Haukur leikur með ÍA í Bestu deild karla og eru Skagamenn núna búnir að vinna fimm deildarleiki í röð í fallbaráttunni. Þeir eru svo gott sem búnir að bjarga sér frá falli.
„Þetta byrjaði allt eftir tapið í Eyjum þar sem við tókum langan fund eftir leik og menn opnuðu sig. Við vorum sammála um að við ætluðum að kýla á þetta og að við höfðum engu að tapa. Við byrjuðum að spila boltanum meira í staðinn fyrir að sparka honum bara einhvert og fórum all-in. Við byrjuðum að spila maður á mann út um allan völl og það hefur bara hentað okkur mjög vel. Þetta byrjaði allt eftir tapið í Eyjum. Við sýndum magnaðan karakter að takast að snúa þessu svona við."
Landslið karla - U21 - Undankeppni EM
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Færeyjar | 4 | 3 | 0 | 1 | 5 - 8 | -3 | 9 |
2. Frakkland | 2 | 2 | 0 | 0 | 12 - 1 | +11 | 6 |
3. Sviss | 2 | 1 | 1 | 0 | 2 - 0 | +2 | 4 |
4. Ísland | 3 | 0 | 2 | 1 | 2 - 3 | -1 | 2 |
5. Eistland | 5 | 0 | 2 | 3 | 5 - 13 | -8 | 2 |
6. Lúxemborg | 2 | 0 | 1 | 1 | 2 - 3 | -1 | 1 |
Athugasemdir