
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, opinberaði landsliðshóp sinn fyrr í dag, sem mætir Norður Írlandi í umspili Þjóðadeildarinnar í lok október.
Ef Ísland sigrar einvígið gegn Norður Írum heldur liðið sæti sínu í A-deild Þjóðadeildarinnar en ef það tapast fellur liðið í B deild.
Þorsteinn Halldórsson gerir fimm breytingar á leikmannahópnum frá hópnum sem var á EM í sumar. Auk þess er hann kominn með nýja aðstoðarmenn í þeim Ólafi Kristjánssyni sem gegnir starfi aðstoðarþjálfara og Amir Mehica, markvarðarþjálfara. Þeir taka við af Ásmundi Haraldssyni, sem hafði verið aðstoðarþjálfari, og Ólafi Péturssyni, markvarðarþjálfara.
Fótbolti.net ræddi við Þorstein fyrr í dag um valið, nýju aðstoðarmennina og leikina gegn Norður-Írum.
„Ég er ánægður með þennan hóp og þá leikmenn sem ég valdi og er bjartsýnn á að við munum gera vel. Auðvitað kemur hluti af þessum breytingum út af öðrum ástæðum, meiðslum og annað en það er eins og gengur og gerist. Kannski óvenju margar í einu sem eru alveg frá. Kannski er þetta ágætis tímapunktur að einhverju leyti að fara í nýja keppni með einhverja nýja leikmenn.“
Hvað koma þeir Ólafur Kristjánsson og Amir Mehica með inn í teymið?
„Þeir koma með góða hluti inn og góða sýn á þetta. Þeir eiga báðir eftir að reynast okkur vel. Ég er mjög sáttur og spenntur fyrir þessu samstarfi.“
Hvers vegna þessi tímapunktur?
„Þetta er ný keppni, maður breytir ekkert endilega um starfslið í miðri keppni. Ég taldi að við værum að fara í smá nýtt upphaf, nýja keppni. Sem verður vonandi næstu tvö árin og því taldi ég þetta vera góðan tímapunkt til að skipta og fá nýjar raddir og nýja sýn með mér.“
Íslenska liðið er án sigurs í síðustu tólf leikjum. Var nauðsynlegt að ráðast í þessar breytingar?
„Já, örugglega. Það er hægt að horfa á það svoleiðis. Við þurfum að stíga upp það er ekki spurning. Við þurfum að byrja á því strax því við þurfum að halda okkur í þessari A-deild. Síðan í framhaldi af því förum við örugglega í erfiðan riðil (í undankeppni HM). Við höfum engan tíma til að bíða með hlutina, ég þurfti að taka ákvörðun um hvernig ég vildi hafa þá og ég taldi þetta vera góða ákvörðun.“
Teluru þetta vera nýjan kafla fyrir landsliðið?
„Já, kannski að einhverju leyti og vonandi. Vonandi verður þetta langur kafli, það er stefnan. Ég er búinn að vera hérna í tæp fimm ár og held að þetta sé ágætis tímapunktur til að skipta út og gera breytingar. Það er ekki gert út af óánægju við hina, alls ekki ég er mjög ánægður með Ása og Óla en ég taldi þetta ágætis tímapunkt til að gera þessa breytingar.“