KA lagði ÍA í botnbaráttuslag í Bestu deildinni í dag. Fótbolti.net ræddi við Hallgrím Mar Steingrímsson, leikmann KA, eftir leikinn.
Lestu um leikinn: KA 2 - 0 ÍA
„Tilfinningin er geðveik. Ég er ánægður að halda hreinu líka. Stubburinn kom frábær inn og vörnin geggjuð. Þetta var erfiður leikur. Þeir létu okkur hafa fyrir þessu, þeir eru með gott lið þótt þeir séu á botninum með okkur. Þetta var virkilega mikilvægur sigur," sagði Grímsi.
ÍA setti góða pressu á KA og voru óheppnir að skora ekki áður en Grímsi innsiglaði sigurinn fyrir KA.
„Mér var ekki orðið sama. Við vorum farnir að hlaupa full mikið fannst mér og duttum full neðarlega. Þeir áttu skalla í slá en sem betur fer náðum við skyndisókn og settum annað markið og þá létti það aðeins lundina hjá manni."
Hann er virkilega ánægður að Birnir Snær Ingason sé kominn til félagsins frá Halmstad í Svíþjóð. Hann kom inn á sem varamaður og var hársbreidd frá því að skora.
„Bara geðveikt. Hann var kominn í færi eftir tvær mínútur og gerði það frábærlega. Þetta er einn besti leikmaðurinn í deildinni og vonandi sýnir hann það með okkur. Við erum himinlifandi að fá svona gæðaleikmann til okkar."
Athugasemdir