
Landsliðshópur kvenna fyrir síðustu leikina í undankeppni HM var tilkynntur í dag.
Bæði Cecilía Rán Rúnarsdóttir og Telma Ívarsdóttir urðu fyrir meiðslum á Evrópumótinu og þurfti að kalla Auði Sveinbjörnsdóttur Scheving og Írisi Dögg Gunnarsdóttur inn í hópinn þá.
Cecilía er að koma til baka eftir meiðslin sem hún varð fyrir og er hún ekki tilbúin fyrir verkefnið sem er framundan, og þá hefur Telma ekkert spilað með Breiðabliki að undanförnu.
Auður og Íris eru því áfram í hópnum að þessu sinni.
„Það var aldrei spurning með Cecilíu. Við fengum neitun frá Bayern München einn, tveir og þrír. Það var varla búið að senda tölvupóstinn þegar það var komið svar til baka," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, á fréttamannafundi í dag.
„Það var í raun aldrei möguleiki. Þau ráða þessu. Við getum kallað hana inn til að skoða hana, en miðað við tímamörkin og annað þá held ég að hún hefði hugsanlega mátt fara að snerta bolta í næstu viku eða þar næstu viku. Þetta hafði aldrei gengið upp."
Auður og Íris komu báðar inn í hópinn á EM. Steini sagðist ekki vera búin að ákveða hvor þeirra væri númer tvö og hvor væri númer þrjú, en Sandra Sigurðardóttir sem var frábær á EM er auðvitað númer eitt.
Athugasemdir