Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mið 19. september 2018 23:27
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jói Kalli talaði um Arnór Sig - „Ótrúlegur hraði á ferli hans"
Arnór Sigurðsson.
Arnór Sigurðsson.
Mynd: CSKA Moskva
Arnór Sigurðsson varð í kvöld yngsti Íslendingurinn sem spilar í Meistaradeildinni. Hann varð jafnframt tólfti Íslendingurinn sem nær þeim áfanga, að spila í Meistaradeild Evrópu. Hann lék síðustu 10 mínúturnar í 2-2 jafntefli CSKA Moskvu gegn Viktoria Plzen.

Arnór er aðeins 19 ára gamall en ferill hans hefur verið á hraðri uppleið síðustu ár.

Arnór fór til Norrköping snemma árs 2017. Hann fór fljótlega að blanda sér í baráttuna um sæti í aðalliðinu og á þessu tímabili var hann orðinn byrjunarliðsmaður að spila mjög vel. CSKA Moskva tók snemma eftir Arnóri og ákvað á dögunum að borga fyrir hann 4 milljónir evra. Hann er dýrasti leikmaður sem Norrköping hefur nokkurn tímann selt.

Leikurinn í kvöld var fyrsti leikur Arnórs með CSKA en þarna er klárlega á ferðinni framtíðarleikmaður fyrir íslenska landsliðið.

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, ræddi um Arnór í Meistaradeildarmessunni á Stöð 2 Sport í kvöld. Jói Kalli þekkir Arnór ágætlega, þeir eru báðir af Skaganum.

„Hann er framliggjandi miðjumaður en hefur líka verið að spila kantstöður. Ég held að besta staða hans sé sóknarmiðjumaður en hann er hörkuduglegur og getur spilað margar stöður," sagði Jóhannes Karl um Arnór.

„Þetta er að mínu klárlega drengur sem á eftir fyrr en síðar að spila fyrir A-landsliðið og ég hlakka til að sjá hann þar. Þetta tekur allt sinn tíma. Hann er í U21 landsliðinu núna en það er ótrúlegur hraði sem hefur verið á ferli þessa drengs. Það eru undir tvö ár síðan hann var á Skaganum og hann er að spila í Meistaradeildinni í dag."

Hjörvar Hafliðason sem var með Jóhannesi í sérfræðingahlutverkinu sagði. „Þetta er með því merkilegra sem maður hefur séð í boltanum."

Jóhannes Karl tók Arnór líka fyrir þegar hann var að velja tilþrif kvöldsins, fyrir það eitt að hann var að spila í leiknum.

„Ég vil nýta tækifærið á að benda öllum íslenskum strákum á þessa byrjun á ferli hjá Arnóri Sigurðssyni. Menn verða tilbúnir að leggja hart að sér, þá geturðu verið ungur kominn í Meistaradeildina, ungur af Skaganum," sagði Jói Kalli.





Athugasemdir
banner
banner
banner
banner