„Þetta var dagur þar sem allt small saman," segir Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, um Skírdag þar sem Eyjamenn unnu 3-0 sigur gegn Víkingi í Mjólkurbikarnum.
Þorlákur var á línunni í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977.
Þorlákur var á línunni í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977.
Þórsvöllurinn er virkilega góður
Hann ræddi meðal annars um vallaraðstæður en þar sem verið er að leggja gervigras á Hásteinsvöll var bikarleikurinn spilaður á Þórsvelli, sem er steinsnar frá. Hvernig var fyrir leikmenn að spila á vellinum?
„Völlurinn er bara góður. Helgafellsvöllur er ekki nægilega góður og var ekki boðlegur í þetta en Þórsvöllurinn er virkilega góður og ekki yfir neinu að kvarta. Þetta er auðvitað allt öðruvísi en að spila á gervigrasi en völlurinn er mjög góður," segir Þorlákur en fyrsti heimaleikur ÍBV í Bestu deildinni, gegn Fram á fimmtudag, verður einnig spilaður á Þórsvelli.
Flestir eru á því að þessi 3-0 sigur ÍBV gegn Víkingi hafi verið virkilega verðskuldaður, Eyjamenn hafi einfaldlega verið betra liðið.
„Ég held það. Við vorum aðeins betri aðilinn í fyrri hálfleik, leikurinn var nokkuð jafn áður en við komumst í 2-0. Eftir það fannst mér við mun sterkari. Það voru möguleikar fyrir Víking fram að því."
Hef sjálfur aldrei sett saman lið svona seint
ÍBV skoraði ekki í fyrstu tveimur umferðunum í Bestu deildinni en þrátt fyrir það segist Þorlákur ekki hafa áhyggjur af markaskorun síns liðs.
„Við fengum mjög mikið af góðum færum gegn Aftureldingu en sóknarleikurinn okkar í fyrsta leik gegn Víkingi var bara slakur. Við vörðumst vel en þegar við unnum boltann virkuðum við stressaðir og tókum rangar ákvarðanir. Í tveimur síðustu leikjum höfum við skapað fullt af færum og þetta er ekki eitthvað sem við höfum áhyggjur af allavega."
Hver var munurinn á ÍBV liðinu frá leiknum gegn Víkingi í fyrstu umferð og þar til liðin mættust á Skírdag?
„Við erum bara komnir lengra með liðið og það er kominn meiri liðsbragur á liðið. Við höfum nokkurn veginn verið með sama byrjunarliðið í gegnum þessa þrjá leiki, eitthvað sem við gátum ekki gert í vetur þar sem voru miklar breytingar vegna forfalla. Fyrst og fremst var hugsunin í síðasta leik að þróa liðið áfram og bæta okkur," segir Þorlákur.
„Við erum komin frekar stutt með liðið og það er ekkert nýtt hjá ÍBV. Ég hef sjálfur aldrei sett saman lið svona seint, ekki síðan ég byrjaði að þjálfa. Það er vegna þeirra aðstæðna sem við búum við. Við misstum marga leikmenn í haust, það var mikið inngrip í liðið. Það tekur tíma fyrir nýja leikmenn og búa til takt. Það finnst mér vera að koma núna."
Tóku ekki áhættu með Tomic
Serbinn Milan Tomic fékk höfuðhögg gegn Aftureldingu og var hvíldur gegn Víkingi. Hann verður þó með í næsta leik gegn Fram.
„Við ákváðum bara að taka ekki áhættu með hann. Hann var saumaður, fékk ekki heilahristing en var með verki í sárinu sjálfu. Við ákváðum að hvíla hann til að hafa hann kláran í næsta leik, taka ekki áhættu með hann. Við leystum það bara mjög vel," segir Þorlákur.
Sóknarmaðurinn Omar Sowe, sem kom frá Leikni, kom inn af bekknum í fyrstu tveimur umferðunum og skoraði svo tvö mörk gegn Víkingi. Hann meiddist á undirbúningstímabilinu og því var hann á bekknum í byrjun Íslandsmótsins.
„Hann er heill en hefur skort leikæfingu. Hann missti fimm síðustu leikina fyrir mót út. Engin óskastaða fyrir okkur. Það tóku sig upp meiðsli sem hann var með í fyrra þegar hann var hjá Leikni og við ákváðum að gefa þessu aðeins meiri tíma. Það vita allir hversu öflugur hann er en hann er að ná upp leikæfingu," segir Þorlákur.
Fram með betra lið en í fyrra
ÍBV tapaði gegn Víkingi og gerði svo jafntefli gegn Aftureldingu í fyrstu tveimur umferðum Bestu deildarinnar. Næst er komið að leik gegn Fram, sem verður klukkan 17 á Þórsvelli á fimmtudag.
„Ég held að Fram sé með betra lið en í fyrra. Þeir eru ekki endilega með betri leikmenn á pappír en tölfræðin úr þessum leikjum sem þeir hafa spilað sýna það. Þeir líta mjög vel út. Ég er á því að þeir séu með sterkara lið í fyrra þó þeir hafi misst einhver nöfn," segir Þorlákur Árnason.
Athugasemdir