mið 20. maí 2020 18:00
Ívan Guðjón Baldursson
Gamla markið: Koeman tryggði fyrsta Evrópubikar Barca
Mynd: Getty Images
Hollenska goðsögnin Ronald Koeman gekk í raðir Barcelona árið 1989 og lék afar mikilvægt hlutverk er Börsungar unnu Evrópubikarinn í fyrsta sinn.

Barca hafði unnið Bikarmeistarakeppnina, sem er í dag Evrópudeildin, þrisvar áður en Koeman kom, en aldrei Evrópubikarinn, sem heitir Meistaradeild Evrópu í dag.

Það var vorið 1992 sem Barca vann Evrópubikarinn í fyrsta sinn, þökk sé glæsilegu sigurmarki frá Koeman sem skoraði 88 mörk í 264 leikjum fyrir félagið.

Í dag eru liðin 28 ár síðan Koeman skoraði þetta gullfallega sigurmark beint úr aukaspyrnu í framlengingu. Þetta reyndist eina mark leiksins í úrslitaleik gegn Sampdoria.

Pep Guardiola var á miðjunni hjá Barca í leiknum ásamt Michael Laudrup. Gianluca Vialli og Roberto Mancini leiddu sóknarlínu Samp.

Barca hafði tvisvar sinnum tapað í úrslitaleik Evrópubikarsins fyrir sigurinn gegn Samp, meðal annars í vítaspyrnukeppni gegn Steaua Bucharest árið 1986. Síðan 1992 hefur félagið unnið keppnina fjórum sinnum, síðast 2015.

Ef þú átt hugmynd að góðu marki til að rifja upp sendu þá tölvupóst á [email protected]

Eldra efni í „gamla markið"


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner