þri 20. september 2022 22:11
Brynjar Ingi Erluson
Ronaldo gerir ráð fyrir því að spila á EM eftir tvö ár
Cristiano Ronaldo
Cristiano Ronaldo
Mynd: Getty Images
Portúgalski sóknarmaðurinn Cristiano Ronaldo hefur sett sér það markmið að ná Evrópumótinu eftir tvö ár.

Ronaldo, sem er 37 ára gamall, hefur aðeins byrjað einn leik í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og ekki enn tekist að skora í keppninni en gerði þó mark í 2-0 sigri liðsins á Sheriff í Evrópudeildinni á dögunum.

Eins og alltaf hefst sú umræða að aldurinn sé loks að ná til Ronaldo og hann sé ekki meðal bestu leikmanna heims lengur en alltaf hefur hann svarað þeirri umræðu með frábærri frammistöðu á vellinum.

Ronaldo verður í aðalhlutverki með portúgalska landsliðinu á HM í Katar en það er spurning hvert hans hlutverk verður eftir tvö ár þegar EM fer fram.

Þá verður hann 39 ára gamall en markmiðið er að vera á því móti sem gæti þá verið hans allra seinasta fyrir landsliðið.

„Það er stolt að spila fyrir landsliðið og ég er enn áhugasamur að vera með liðinu sem hefur marga unga leikmenn. Framtíðin er gríðarlega björt og ég vil auðvitað halda áfram að spila og vera partur af hópnum á HM og svo geri ég ráð fyrir því að fara á EM líka," sagði Ronaldo á sérstakri hátíð í Portúgal í kvöld en þar var hann verðlaunaður fyrir að vera markahæsti landsliðsmaður frá upphafi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner