Kane gæti tekið við af Lewandowski - Amorim fær pening - Camavinga til Englands?
   lau 20. september 2025 16:22
Brynjar Ingi Erluson
England: Nýju mennirnir afgreiddu botnliðið - Klaufalegt sjálfsmark kostaði Brighton
Noah Okafor skoraði fyrir Leeds gegn botnliði Wolves
Noah Okafor skoraði fyrir Leeds gegn botnliði Wolves
Mynd: Leeds
Jan Paul van Hecke skoraði klaufalegt sjálfsmark
Jan Paul van Hecke skoraði klaufalegt sjálfsmark
Mynd: EPA
Jaidon Anthony hefur verið frábær með Burnley
Jaidon Anthony hefur verið frábær með Burnley
Mynd: EPA
Nýliðar Leeds unnu 3-1 sigur á Wolves í 5. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag en þetta var annar sigur Leedsara á nýju tímabili. Brighton kastaði frá sér tveggja marka forystu í 2-2 jafntefli gegn Tottenham á AMEX-leikvanginum.

Við byrjum í Brighton þar sem heimamenn fóru illa að ráði sínu gegn sterku liði Tottenham.

Yankuba Minteh tók á skarið fyrir Brighton á 8. mínútu. Georginio Rutter var í baráttu á eigin vallarhelmingi, náði að slíta sig lausan og koma með þessa glæsilegu stungusendingu inn fyrir á Minteh sem lék á Guglielmo Vicario áður en hann lagði boltann í netið.

Vont fyrir Tottenham og versnaði ástandið á 31. mínútu er Yasin Ayari skoraði með frábæru skoti rétt fyrir utan horn vítateigsins og framhjá Vicario. Ítalinn átti líklega að gera betur, en engu að síður flott mark hjá Ayari.

Tottenham var betri aðilinn stærstan hluta fyrri hálfleiksins, en einhvern veginn komið í slæma stöðu. Hlutirnir fóru að falla með þeim undir lok hálfleiksins er Richarlison minnkaði muninn er hann komst inn í skot Mohammed Kudus og stýrði boltanum inn.

Sterkt hjá Tottenham að koma inn marki undir lok fyrri hálfleiks og hélt liðið áfram að leita að mörkum í þeim síðari. Xavi Simons fékk nokkur færi til að skora en brást bogalistin og var það ekki fyrr en á 82. mínútu sem jöfnunarmarkið kom.

Jan Paul van Hecke misreiknaði fyrirgjöf inn á teiginn all svakalega og sparkaði boltanum í eigið net. Afar klaufalegt hjá hollenska varnarmanninum.

Kudus var ekki langt frá því að fullkomna endurkomu Spurs undir lokin, en skot hans fór af Lewis Dunk og rétt yfir markið. 2-2 jafntefli niðurstaðan í Brighton og Tottenham nú komið í 2. sætið með 10 stig en Brighton í 13. sæti með 5 stig.

Burnley og Nottingham Forest gerðu 1-1 jafntefli. Neco Williams skoraði fyrsta markið undir stjórn Ange Postecoglou er hann hamraði boltanum í netið eftir hornspyrnu.

Gleði Forest-manna entist ekki lengi og aðeins átján mínútum síðar gerði Jaidon Anthony jöfnunarmarkið. Anthony skoraði þrjú mörk lagt upp eitt í fyrstu fimm leikjunum!

West Ham tapaði fyrir Crystal Palace, 2-1, á Ólympíuleikvanginum í Lundúnum.

Franski sóknarmaðurinn Jean-Philippe Mateta skoraði sitt 50. mark fyrir Palace er hann stangaði boltanum í netið eftir hornspyrnu á 37. mínútu.

Jarrod Bowen jafnaði snemma í síðari hálfleik eftir undirbúning Malick Diouf áður en Tyrick Mitchell tryggði Palace stigin þrjú með frábæru skoti á fjærstönginni.

Útlitið ekki gott fyrir West Ham sem er í 18. sæti með 3 stig en Palace byrjar tímabilið vel og situr nú í 4. sæti með 9 stig.

Nýliðar Leeds unnu annan leik sinn á tímabilinu er liðið vann botnlið Wolves, 3-1, á Molineux.

Gengi Wolves hefur verið afleitt til þessa, en það mátti sjá vott af vonarglætu er Ladislav Krejci kom liðinu yfir á 8. mínútu. Því miður fyrir Wolves þá hrundi allt eftir það.

Dominic Calvert-Lewin jafnaði á 31. mínútu og átta mínútum síðar skoraði þýski miðjumaðurinn Anton Stach annað markið með frábæru skoti úr aukaspyrnu.

Noah Okafor tryggði sigurinn eftir að Stach vann boltann og kom honum á Okafor sem skoraði. Nýju leikmennirnir allir á skotskónum hjá Leeds sem eru í 9. sæti með 7 stig en Wolves áfram án stiga á botninum.

Brighton 2 - 2 Tottenham
1-0 Yankuba Minteh ('8 )
2-0 Yasin Ayari ('31 )
2-1 Richarlison ('43 )
2-2 Jan Paul van Hecke ('82 , sjálfsmark)

Wolves 1 - 3 Leeds
1-0 Ladislav Krejci ('8 )
1-1 Dominic Calvert-Lewin ('31 )
1-2 Anton Stach ('39 )
1-3 Noah Okafor ('45 )

West Ham 1 - 2 Crystal Palace
0-1 Jean-Philippe Mateta ('37 )
1-1 Jarrod Bowen ('49 )
1-2 Tyrick Mitchell ('68 )

Burnley 1 - 1 Nott. Forest
0-1 Neco Williams ('2 )
1-1 Jaidon Anthony ('20 )
Athugasemdir
banner