Lærisveinar Freys Alexanderssonar í Brann eru á miklu skriði þessa dagana en liðið sótti annan sigur sinn í röð í norsku úrvalsdeildinni er það heimsótti Sandefjord.
Brann hefur ekki tapað deildarleik síðan í júlí og náðu þeim ótrúlega áfanga að koma liðinu í deildarkeppni Evrópudeildarinnar á dögunum.
Íslendingaliðið heldur áfram að gera góða hluti en í dag vann það Stefán Inga Sigurðarson og félaga í Sandefjord, 3-0. Sævar Atli Magnússon byrjaði hjá Brann en Eggert Aron Guðmundsson var ónotaður varamaður. Stefán spilaði 70 mínútur hjá Sandefjord.
Brann er í 3. sæti með 43 stig en Sandefjord í 9. sæti með 28 stig.
Benoný Breki Andrésson byrjaði hjá Stockport County sem vann nauman 1-0 sigur á Rotherham í ensku C-deildinni. Annar leikurinn í röð sem hann er í byrjunarliði enska liðsins.
Stockport er í 8. sæti með 15 stig.
Davíð Snær Jóhannsson og Ólafur Guðmundsson komu inn af bekknum hjá Álasundi sem vann 3-0 sigur á Skeid í norsku B-deildinni. Álasund er í 3. sæti með 38 stig.
Lúkas Petersson stóð á milli stanganna hjá varaliði Hoffenheim sem fór illa með 1860 München, 5-1, í C-deildinni í Þýskalandi. Lúkas hefur farið vel af stað með nýliðunum sem eru í 3. sæti með 13 stig eftir sjö umferðir.
Aron Einar Gunnarsson lék þá með Al Gharafa sem gerði markalaust jafntefli við Shamal í stjörnudeildinni í Katar. Al Gharafa er í 3. sæti með 10 stig.
Athugasemdir