Elías Rafn Ólafsson, markvörður Midtjylland, var með bestu mönnum liðsins er það gerði 1-1 jafntefli við Slovan Bratislava í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Markvörðurinn hefur notið sín á milli stanganna frá því hann kom til baka úr láni frá Mafra í Portúgal.
Hann hefur verið að spila vel og hélt því áfram í kvöld, en hann fékk 7,6 í einkunn frá FotMob.
Alls varði hann fjórum sinnum frá mótherjanum og það í gríðarlega mikilvægum leik.
Liðin eigast aftur við í næstu viku en sigurvegarinn fer í nýja deildarkeppni Meistaradeildarinnar.
Daníel Tristan Guðjohnsen var ekki í leikmannahópi Malmö sem tapaði fyrir Spörtu Prag, 2-0, í Malmö.
Unglingalandsliðsmaðurinn hefur ekki verið mikið í myndinni hjá aðaliðinu frá því hann snéri til baka úr meiðslum.
Hann lék síðast með U19 ára liði Malmö í 1-1 jafntefli gegn Sundsvall fyrir tæpum tveimur vikum en Daníel hefur verið orðaður við Álaborg og Lyngby í Danmörku undanfarnar vikur.
Athugasemdir



