Chelsea og Napoli munu funda saman á næsta sólarhringnum og er gert ráð fyrir að félögin nái samkomulagi um belgíska framherjann Romelu Lukaku, en þetta segir Fabrizio Romano á X í kvöld.
Napoli hefur verið á eftir Lukaku í allt sumar en Antonio Conte vill ólmur endurnýja kynni sín við leikmanninn.
Lundúnafélagið hefur ekki áhuga á að halda honum en ætlar ekki heldur að selja hann á tombóluverði.
Chelsea keypti Lukaku frá Inter fyrir 97,5 milljónir punda fyrir þremur árum, en þetta var í annað sinn sem hann gekk í raðir félagsins á ferli sínum.
Endurkoman var ekkert sérlega árangursrík. Hann skoraði vissulega fimmtán mörk á fyrsta tímabili sínu, en á heildina litið var hann virkilega slakur.
Hann hefur verið á láni hjá Inter og Roma síðustu tvö tímabil og skorað 35 mörk, en hann verður líklegast áfram í ítalska boltanum ef marka má Fabrizio Romano.
Napoli hefur átt í viðræðum við Chelsea í allt sumar og eru félögin nú að nálgast samkomulag. Stjórnarmenn félaganna hittast í Lundúnum á morgun til að ganga frá samkomulagi.
Má því gera ráð fyrir því að Lukaku verði orðinn leikmaður Napoli í lok vikunnar.
Athugasemdir



