Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fim 24. júní 2021 12:48
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Geta leyft sér að gleðjast eftir óvæntan sigur - „Búið að vera hálf farsakennt"
Arnar Hallsson
Arnar Hallsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marki fagnað á dögunum
Marki fagnað á dögunum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍR sló út ÍBV í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í gær. ÍR er í 4. sæti 2. deildar og hafði ekki unnið í síðustu fjórum leikjum sínum á meðan ÍBV hafði náð í þrettán stig í síðustu fimm leikjum sínum í Lengjudeildinni, deild ofar.

Leikurinn endaði með 3-0 sigri ÍR og voru það þeir Jón Kristinn Ingason, Jorgen Pettersen og Hörður Máni Ásmundsson sem skoruðu mörkin.

Arnar Hallsson, þjálfari ÍR, var mjög sáttur við leikinn þegar hann ræddi við Fótbolta.net í dag.

„Það verður að leyfa sér að gleðjast þegar vel gengur. Það er búið að vera nógu helvíti erfitt," sagði Arnar léttur.

„Mér fannst þetta vera sanngjarn sigur. Við byrjuðum leikinn mikið betur og vorum búnir að ógna þeirra marki tvisvar eða þrisvar áður en við skoruðum. Þegar við komumst yfir þá breytist leikurinn aðeins og þeir lágu svolítið á okkur í lok fyrri hálfleiks. Þá vorum við baráttuglaðir og pínu heppnir í bland, komumst í gegnum þann kafla en svo fannst mér þetta aldrei vandamál í síðari hálfleik."

Hver var lykillinn að sigrinum?

„Ég held að það sem hafi verið stærsta trompið var sú staðreynd að það var ofboðslega góð stemning í okkar liði. Það gaf mikla innspýtingu að byrja leikinn sterkt og stemningin var vaxandi hjá okkur og það skilaði þeim held ég smá pirringi. Það fer stundum saman."

Ekkert gengið upp
Er það mikill léttir að ná inn sigri eftir smá hrinu án sigurs í deildinni?

„Við sendum alla okkar leiki í greiningu og þetta er eiginlega búið að vera hálf farsakennt þannig séð. Á móti Kára er dæmt af okkur fullkomlega löglegt mark á einhvern óskiljanlegan hátt. Það er beint úr horni og það var svekkjandi."

„Á móti Fjarðabyggð þá held ég að þeir hafi ekki einu sinni séð boltann í leiknum. Þeir komust tvisvar inn í vítateig hjá okkur og við áttum þann leik með húð og hári. Gegn Njarðvík, í stöðunni 1-0 þá fáum við tvö dauðafæri til að jafna leikinn. Í seinna færinu ver markvörðurinn einn á móti einum, þeir hreinsa og skora 2-0."

„Við höfum ekki verið alveg nógu beittir í vítateig andstæðinganna og verið aðeins of kærulausir í kringum eigin vítateig. Við höfum teiganna á milli verið að stjórna leikjunum en leikirnir ráðast yfirleitt inn í teigunum."

„Það sem var öðruvísi í leiknum í gær að ÍBV leggst ekki alveg niður heldur reynir að pressa okkur og reynir að neita okkur um að spila. Þess vegna þróast þessi leikur eins og hann þróaðist."


Vildu sýna að þeir væru betri en síðustu úrslit sýna
Var auðveldara að hvetja menn áfram fyrir leik þar sem liðið er talið talsvert ólíklegra til að ná inn sigri?

„Það sem var kannski stóra hvatningin var að við erum mjög óánægðir með gengið í deildinni. Allir í hópnum eru á því að það búi meira í liðinu og strákunum líður þannig. Við í teyminu reyndum að selja þeim að þetta væri leikurinn til að sýna og sanna að við værum betri en síðustu úrslit segðu til um. Þeir gripu það á lofti og mér fannst við sýna það í gær."

Vill aftur fá gott Lengjudeildarlið
Ertu með einhvern óskamótherja í 16-liða úrslitum?

„Eitthvað gott Lengjudeildarlið til að prófa okkur aftur. Það er mjög strembið að mæta úrvalsdeildarliðunum. Það er talsvert mikið bil milli efstu og næstefstu deildar. Bilið milli 2. deildar og Lengu er minna en milli Pepsi Max og Lengju. Það væri best og mest spennandi fyrir okkur að fá gott Lengjudeildarlið og fá aftur tækifæri til að máta okkur við gott Lengjudeildarlið."

ÍR-ingar létu sjá sig
Einhver lokaorð?

„Það var gaman að upplifa þessa gleði og stemningu sem var í Breiðholti í gær. Maður sá að það voru ÍR-ingar að skríða út úr ýmsum skúmaskotum. Það var gaman að njóta sigursins með þeim," sagði Arnar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner