Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 24. júní 2021 14:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Gunnar Heiðar hrikalega stoltur - „Með bestu stuðningsmenn á landinu"
Myndir eftir leikinn í gær.
Myndir eftir leikinn í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
KFS vann í gær óvæntan bikarsigur þegar liðið lagði Víking Ólafsvík að velli í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. KFS leikur í 3. deildinni á meðan Víkingur er tveimur deildum ofar. Bæði þessi lið eru á botni sinna deilda.

Elmar Erlingsson skoraði tvennu í leiknum fyrir KFS og Víðir Þorvarðarson skoraði sömuleiðis tvennu.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari KFS, var að vonum kátur með úrslitin þegar Fótbolti.net heyrði í honum í dag.

„Tilfinningin var frábær og þetta var virkilega sætt. Ég er hrikalega stoltur af peyjunum, þeir gáfu allt í þetta og það sást alveg í leiknum. Þeir voru hrikalega flottir," sagði Gunnar Heiðar.

Var þetta verðskuldaður sigur?

„Já, ég þarf ekki einu sinni að ljúga því. Við sköpuðum okkur fleiri og hættulegri færi. Við hefðum getað verið komnir í 3-0 í fyrri hálfleik. Við vildum þetta einhvern veginn meira en auðvitað eru þeir með gæða leikmenn inn á milli. Við náðum að sjá við þeim leikmönnum og uppskárum eins og við sáðum."

Höfðu engu að tapa
Var öðruvísi að keyra menn áfram fyrir þennan leik en aðra leiki?

„Þessi leikur kom á góðum tíma fyrir okkur. Við höfum verið að spila marga leiki í 3. deildinni og þetta hefur verið svolítið stöngin út hjá okkur. Ég sagði við strákana að nú værum við að fara í leik þar sem við hefðum engu að tapa og að öllu að vinna. Þá gætu menn losað allt mögulegt sem var í gangi í höfðinu á mönnum fyrir þennan leik og vonandi byggt ofan á það í framhaldinu. Það er nákvæmlega það sem gerðist og það er frábært."

KR á heimavelli
Ertu með óskamótherja í næstu umferð?

„Það væri langbest að fá einhvern heimaleik, eigum við ekki að segja heimaleik á móti KR. Það er það sem við viljum."

Leikið á Hásteinsvelli
Af hverju spiluðuð þið á Hásteinsvelli í gær en ekki Týsvelli?

„Það er út af því að það er Orkumót í gangi og það er búið að mála allar línur á Týsvellinum og þess vegna fórum við á Hásteinsvöll. Það hefði ekki verið hægt að bjóða Víkingi Ó upp á að það væru línur út um allt."

Stendur það til að spila alla leiki á Hásteinsvelli eftir þetta?

„Það kemur í ljós," sagði Gunnar Heiðar og hló.

Blendin stemning - bestu stuðningsmenn landsins
Hvernig er stemningin á eyjunni, er hún svolítið blendin eftir að ÍBV tapaði í gær?

„Það er raunin, þeir töpuðu og við unnum. Auðvitað hefði ég viljað hafa bæði liðin áfram en ég veit ekki hvernig þessi leikur var hjá ÍBV gegn ÍR."

„Stuðningurinn sem við fengum í gær var gjörsamlega geggjaður. Fengum Hvítu riddarana, stuðningssveit handboltaliðsins, þeir komu þarna með blys og í þeim erum við með bestu stuðningsmenn á landinu."


Gríðarlega ungt lið
Ég sá að Gauti, Víðir og Matt Garner voru á bekknum í gær og komu við sögu. Eru þessir reynsluboltar alltaf með ykkur?

„Nei, þeir reyna að koma eins mikið og þeir geta. Ég get ekki verið að þrýsta á þá eða segja þeim að mæta þarna og þarna. Þeir eru í vinnu, með fjölskyldur og fleira. Ég er glaður þegar þeir geta komið og hjálpað okkur. Ég er með gríðarlega ungt lið, með einhverja fimm sautján ára stráka, marga sem eru ennþá í 2. flokki. Það er frábært fyrir þá að fá að spila með svona reynsboltum eins og þeim."

Gríðarlegur lærdómur
Eruð þið með nógu gott lið til að halda ykkur uppi í 3. deildinni?

„Ekki spurning, mér hefur fundist það. Það var einn leikur þar sem við gjörsamlega skitum upp á bak. En í öllum hinum leikjunum hefur mér fundist við vera mjög nálægt þessu. Það hefur vantað aðeins að klára færin svo leikir myndu enda öðruvísi. Þetta eru strákar sem hafa ekki spilað í þetta erfiðri deild þannig þeir eru að fá gríðarlegan lærdóm."

„Markmið númer eitt, tvö og þrjú er að við höldum okkur uppi svo þeir haldi áfram að spila þessa leiki á næsta tímabili og svo vonandi spila með ÍBV í framtíðinni,"
sagði Gunnar Heiðar sem var að gera sig kláran í að horfa á peyjann sinn á Orkumótinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner