
Það var nokkuð um Íslendingalið sem spiluðu í leikjum dagsins í skandinavíska kvennaboltanum, þar sem keppt var í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.
Hin norska Iris Omarsdottir var atkvæðamest dætranna í dag, þar sem hún lagði upp bæði mörkin í frábærum 2-0 sigri Stabæk gegn Selmu Sól Magnúsdóttur og stöllum í stórliði Rosenborg.
Stabæk vann óvæntan sigur og er um miðja deild, með 24 stig eftir 18 umferðir. Rosenborg er í öðru sæti með 37 stig og þarf að passa sig að tapa ekki alltof mörgum stigum í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu.
Vålerenga er svo gott sem búið að sigra deildina í ár þar sem liðið er með 14 stiga forystu á toppinum. Sædís Rún Heiðarsdóttir kom við sögu í þægilegum sigri liðsins á útivelli gegn Lilleström í dag.
Ásdís Karen Halldórsóttir var í byrjunarliði Lilleström sem er í fjórða sæti deildarinnar.
Í sænska boltanum kom María Catharina Ólafsdóttir Gros við sögu í 2-2 jafntefli hjá Linköping á heimavelli gegn Norrköping.
María fékk að spila síðasta hálftíma leiksins en Linköping siglir lygnan sjó um miðja deild, með 21 stig eftir 16 umferðir.
Á sama tíma voru Bryndís Arna Níelsdóttir og Þórdís Elva Ágústsdóttir í byrjunarliði Växjö sem gerði jafntefli á útivelli gegn Djurgården.
Bryndísi og Þórdísi var skipt útaf í síðari hálfleik og tókst Vasiliki Giannaka, sem kom inn fyrir Þórdísi, að gera jöfnunarmark undir lokin.
Bæði Växjö og Djurgården eru um miðja deild með 21 stig eftir þetta jafntefli, alveg eins og Linköping.
Að lokum var hin bráðefnilega Emilía Kiær Ásgeirsóttir á sínum stað í byrjunarliði Nordsjælland sem sigraði gegn OB í efstu deild danska boltans.
Nordsjælland er með fullt hús stiga eftir þrjár fyrstu umferðirnar á nýju tímabili.
Stabæk 2 - 0 Rosenborg
LSK 0 - 4 Valerenga
Linkoping 2 - 2 Norrkoping
Djurgarden 1 - 1 Vaxjo
Nordsjælland 2 - 0 Odense
Athugasemdir