„Að sjálfsögðu er þetta svekkjandi, úrslitaleikur og mjög svekkjandi að tapa með þessum hætti. Aðstæðurnar í seinni hálfleik voru hrikalega erfiðar fyrir bæði lið. Mér fannst fyrri hálfleikur gríðarlega sterkur hjá okkur, hefðum átt að fara með stærra forskot í hálfleikinn og þegar þú ert að mæta svona góðu liði eins og FH þá er 1-0 hættuleg staða," sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, eftir tap í úrslitaleik Lengjubikarsins.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 1 - 2 FH
„Mörkin sem við fengum á okkur voru virkilega klaufaleg og mjög ólíkt okkur að fá á okkur mörk eftir fyrirgjöf. Mér fannst frammistaðan í fyrri hálfleik það sem ég get tekið jákvætt út úr þessu. Það er erfitt að dæma svona seinni hálfleik í vindleik."
Varstu svekktur að staðan var bara 1-0?
„Já, við hefðum átt að nýta færin betur og síðustu sendingarnar - þegar menn voru í dauðafærum - þá klikkaði hún líka. Þetta er búið að vera smá vandamál í vetur. Mér finnst að við hefðum átt að taka nokkra leiki og valta yfir liðin. Í staðinn höfum verið með 1-0 eða 2-0 forskot og þá ertu svolítið að bjóða hættunni heim. Það kemur að því að þú tapar fótboltaleikjum, það er þögn inn í klefa núna og þannig á tap að hljóma. Menn eru svekktir."
Arnar var án allra þeirra sem eru í landsliðsverkefnum, þeir leikmenn eru sex talsins. Hann segir það ekki hafa komið til tals að fresta leiknum. Það hafi aðeins verið skoðað að spila leikinn 14. apríl en það var of nærri Íslandsmótinu.
„Þetta var bara góð æfing og við erum alltaf að röfla um að vera með stóran og sterkan hóp. Núna var tækifæri fyrir leikmenn að sýna sig og gera tilkall til að byrja inn á í sumar. Mér fannst allir flottir megnið af leiknum. Það voru 3-4 leikmenn sem fengu loksins 90 mínútur; Niko, Birnir og Oliver. Mér fannst byrjunarliðið mjög sterkt, Axel var virkilega flottur í nýrri stöðu - hægri bakverðinum. Það er ný staða fyrir honum. Ég hef ekkert út á frammistöðu einstakra leikmanna að setja."
Arnar var sérstaklega spurður út í Axel Frey Harðarson sem lék í hægri bakverði í dag. Svör Arnars má sjá í spilaranum að ofan.
Er þetta slæmur tímapunktur til að tapa leik?
„Það fer eftir því hvernig þú lítur á það, þetta gæti verið spark í rassinn á einhverjum. Þetta var alls ekki verðskuldað tap, engin rassskelling og því er kannski hægt að líta jákvætt á frammistöðuna í leiknum, klúðrum fullt af dauðafærum og áttir mögulega skilið að vinna."
„Það eina sem ég er kannski mest svekktur yfir er að við erum að missa svolítið takið á því að vera ósigrandi í úrslitaleikjum. Það er slæmt að missa það rétt fyrir Íslandsmót. Það er eitthvað sem við þurfum að vinna í að bæta strax í meistarar meistaranna. Það er annar málmur þar í boði. Það er slæmt að missa það tak sem þú varst með á önnur lið í úrslitaleikjum. Svona er þetta, í fótbolta taparu stundum," sagði Arnar að lokum.
Athugasemdir























