Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   lau 25. mars 2023 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Kahn um Nagelsmann: Ekki nægilega góðir eftir HM
Mynd: EPA
Mynd: EPA

FC Bayern staðfesti í gær brottrekstur Julian Nagelsmann og ráðningu Thomas Tuchel í þjálfarastólinn í hans stað.


Þetta eru gríðarlega stórar fréttir og ekki margir sem bjuggust við þessu þegar landsleikjahléð fór af stað. Þetta gerðist engu að síður og hefur Oliver Kahn, goðsögn og stjórnandi hjá Bayern, gefið stutt svar.

„Þegar við réðum Julian Nagelsmann sumarið 2021 var markmiðið að hann yrði hérna til langs tíma. Julian er maður sem deilir hugsjónum félagsins um að spila árangursríkan og aðlaðandi sóknarbolta," sagði Kahn eftir að Nagelsmann var rekinn.

„Nú höfum við í stjórninni komist að þeirri niðurstöðu að okkur vantar annan mann í starfið. Gæði liðsins eru ekki að skína nógu vel í gegn og við þurfum að skipta um þjálfara þrátt fyrir sigur í þýsku deildinni á síðustu leiktíð.

„Við höfum ekki verið nægilega góðir eftir HM. Misjafnar frammistöður hafa kastað skugga bæði á markmið tímabilsins og framtíðarmarkmið félagsins. Það er ástæðan fyrir því að við tókum þessa ákvörðun strax."

Bayern er komið í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir flottan sigur gegn PSG í síðustu umferð en liðið er óvænt í öðru sæti þýsku deildarinnar eftir tap gegn Bayer Leverkusen í síðustu umferð. Þar er Bayern með 52 stig úr 25 umferðum, einu stigi eftir toppliði Borussia Dortmund.

Þýskir fjölmiðlar halda því fram að raunveruleg ástæða brottrekstrarins sé ósætti á milli Nagelsmann og stjórnarinnar annars vegar og Nagelsmann og hluta leikmanna FC Bayern hins vegar.

Því er haldið fram að stjórn Bayern hafi verið fokreið þegar Nagelsmann ákvað að fara í skíðaferðalag með kærustunni í landsleikjahlénu, strax eftir að hafa tapað deildarleik. Þá eru leikmenn sagðir vera óánægðir með andrúmsloftið í kringum Nagelsmann og að þeir beri ekki nægilega mikla virðingu fyrir honum.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner