Stórliðin berjast um Rodrygo - Villa hættir að eltast við Jackson - Tottenham heldur áfram að reyna við Savinho
   lau 23. ágúst 2025 17:46
Brynjar Ingi Erluson
Frank í skýjunum með sigurinn og Palhinha - „Vá!“
Thomas Frank
Thomas Frank
Mynd: EPA
Frank og Guardiola ræða málin
Frank og Guardiola ræða málin
Mynd: EPA
Danski stjórinn Thomas Frank var í skýjunum með 2-0 sigur Tottenham á Manchester City á Etihad-vellinum í dag en Tottenham er með fullt hús stiga undir hans stjórn.

Frank var ekki lengi að koma með áhrif sín inn í lið Tottenham og ef horft er á fyrstu tvær umferðirnar má sjá að leikmenn eru mættir fullir sjálfstrausts inn í tímabilið.

Tottenham hefur unnið báða leiki sína og litið ótrúlega vel út í þessum leikjum. Ekki skemmir fyrir að liðið hafi haldið hreinu í báðum leikjunum.

„Ég er í skýjunum og ótrúlega stoltur af frammistöðu leikmanna. Þetta var alveg stórkostlega gott. Fyrstu 35 mínúturnar voru nokkuð jafnar, en Man City kannski aðeins með yfirhöndina. Hugarfarið breyttist aðeins þegar leið á leikinn, það er að segja þegar það kemur að því að vera með í leiknum og síðan skoruðum við frábært mark.“

„Seinni hálfleikurinn var mjög góður. Við vorum grimmir í hápressu og á undan í allt. Við vorum með það í hausnum að taka þetta 3-0. Hreint lak gerir mig sérstaklega glaðan því við höfum verið að vinna í varnarvinnu liðsins. Þú þarft topp hugarfar til þess að vinna svona leiki.“


Tottenham hefur sótt nokkra góða leikmenn í sumarglugganum, þar á meðal Mohammed Kudus og Joao Palhinha sem Frank hrósaði eftir leikinn.

Palhinha kom frá Bayern. Hann var ekki að fá að spila þar og hafði það ekkert með frammistöðu hans að gera heldur var hreinlega ekki pláss fyrir hann, en hann hafði gert frábæra hluti með Fulham frá 2022 til 2024 og kann vel við sig í úrvalsdeildinni.

„Við fengum nokkrar spurningar um leikmannamarkaðinn í gær og mikið um ef og hefði, en það sem er 100 prósent í þessu er að við höfum fengið tvo topp leikmenn í hópinn með þeim Joao Palhinha og Mohammed Kudus. Báðir spiluðu frábærlega og Vá hvað Palhinha hjálpar þessu liði mikið.“

Tottenham tapaði baráttunni við Arsenal um enska sóknartengiliðinn Eberechi Eze, en Frank vildi lítið tjá sig um hann.

„Það er ekkert mál. Ég nota aldrei nein orð um leikmann sem er ekki hjá okkar félagi,“ sagði Frank í lokin.
Athugasemdir
banner