
„Ég er búinn að vera segja við alla að ég trúi þessu ekki enn," sagði Guy Smit, markvörður Vestra eftir 1-0 sigur gegn Val í úrslitaleik Mjólkurbikarsins í kvöld. Smit var frábær í leiknum og var valinn maður leiksins.
Lestu um leikinn: Valur 0 - 1 Vestri
„Þetta er ekki raunverulegt, við erum bara einhverjir gæjar frá Ísafirði. Við vörðumst í 70-80 mínútur, þetta er galið," sagði Smit.
Smit átt fullt af frábærum vörslum sem var undirstaðan í þessum sigri hjá Vestra.
„Þegar ég horfi aftur á þessar vörslur verð ég kannski mjög glaður. Núna er ég bara ánægður fyrir liðið. Því í seinni hálfleik, þá börðust allir svo mikið, og gerðu allt sem mig gat aðeins dreymt um. Ég stóð þarna bara, studdi þá áfram og var tilbúinn, þannig mín virðing fer á þá. Kannski í kvöld, þegar ég fæ mér einn vodka red bull. Þá hugsa ég kannski um að ég tók nokkrar frábærar vörslur, en núna fer öll mín virðing á strákana," sagði Smit.
Smit hefur verið á Íslandi núna í þónokkur ár og spilað með mörgum liðum. Hann virðist hafa blómstrað hjá Vestra, og kórónar gott tímabil með þessum titli.
„Þetta er einstakt. Þegar ég lít til baka þá voru einhver ár góð, og einhver ekki góð, næstum á hverju ári fer ég í nýtt lið. Með Davíð Smára og þessu liði, þá small þetta saman, og það er lítið sem ég get sagt. Þetta small bara saman, og ég fekk mikið traust. Mér var ekki þrýst í að gera neitt, þeir leyfa mér bara að sjá um mitt og að gera það sem ég geri og treysta mér. Það var eins í Leikni, Valur Gunnarsson sem þjálfaði þar, hann leyfði mér bara að gera mitt. Ég trúi því núna, ég er næstum þrítugur, að það er best þannig. Stundum þarf ég samt spark í rassinn frá þjálfaranum mínum, og þeir gera það alltaf á réttum tíma," sagði Smit.
Guy varð þá smá klökkur, þegar hann talaði um fjölskyldu sína og talaði um hversu stórt þetta kvöld er fyrir hann.
„Þetta er einstakt. Fjölskyldan mín er öll að horfa í Hollandi, mig langar bara að segja að ég elska þau. Ég elska kærustuna mína, fjölskylduna mína, mömmu. Fjölskyldan er öll að horfa, ég elska þau öll," sagði Smit með tárin í augunum.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.