Megan Rapinoe er eitt stærsta nafn í sögu kvennafótboltans. Í nótt lék hún sinn síðasta landsleik fyrir Bandaríkin en liðið vann þá 2-0 sigur gegn Suður-Afríku í vináttulandsleik í Chicago.
Rapinoe, sem er 38 ára, kvaddi því með sigri en annað mark leiksins kom eftir hornspyrnu sem hún tók.
Rapinoe, sem er 38 ára, kvaddi því með sigri en annað mark leiksins kom eftir hornspyrnu sem hún tók.
Rapinoe lék sinn fyrsta landsleik fyrir Bandaríkin 2006 og lék alls 203 leiki fyrir þjóð sína. Hún skoraði 63 mörk og vann HM 2015 og 2019.
„Móttökurnar sem ég fékk frá stuðningsmönnum voru hreint magnaðar. Ég mun alltaf sakna þess að spila fyrir svona marga áhorfendur," sagði Rapinoe sem var í byrjunarliðinu.
Hún fékk heiðursskiptingu eftir 54 mínútur og hneigði sig þegar áhorfendur risu úr sætum og fögnuðu henni.
Rapinoe spilaði fjórum sinnum á HM og vann Ballon d'Or gullknöttinn 2019. Hennar síðasta HM endaði hinsvegar illa, hún var einn af þeim leikmönnum sem klúðruðu vítaspyrnum þegar Bandaríkin féllu út gegn Svíþjóð í 16-liða úrslitum fyrr á þessu ári.
Rapinoe er einnig þekkt sem baráttukona fyrir hinum ýmsu réttindamálum. Hennar síðasti fótboltaleikur á ferlinum verður í október, þegar lið hennar OL Reign mætir Chicago Red Stars í bandaírsku NWSL deildinni.
Athugasemdir