Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mið 26. janúar 2022 17:24
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Jói Kalli hættur hjá ÍA (Staðfest) - Ráðinn aðstoðarlandsliðsþjálfari
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Haukur Gunnarsson
Jóhannes Karl Guðjónsson hefur látið af störfum hjá ÍA og er tekinn við sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins. ÍA og KSÍ hafa staðfest tíðindin.

„Knattspyrnufélag ÍA veitti þjálfara meistaraflokks karla, Jóhannesi Karli Guðjónssyni, leyfi fyrir stuttu til að ræða við KSÍ um starf aðstoðarlandsliðsþjálfara A landsliðs karla. Jóhannes Karl hefur ákveðið að taka boði KSÍ og mun því láta af störfum hjá ÍA," segir í tilkynningu ÍA.

ÍA mun á næstu dögum ákveða hver tekur við af Jóa Kalla en þangað til mun Guðlaugur Baldursson stýra æfingum og leikjum liðsins.

„Jóhannes Karl er með þessu orðinn einn af mörgum þjálfurum Knattspyrnufélags ÍA sem hafa farið til starfa hjá Knattspyrnusambandi Íslands."

Jói Kalli mun aðstoða Arnar Þór Viðarsson með A-landsliðið. Í útvarpsþættinum Fótbolta.net fyrir rúmri viku síðan kom fram að Jói Kalli væri einn af þeim sem væru á blaði hjá Arnari. Jói Kalli stígur inn í starf Eiðs Smára Guðjohnsen sem var látinn fara sem aðstoðarlandsliðsþjálfari í lok nóvember.

Jói Kalli er 41 árs og lék um árabil sem atvinnumaður. Hann lék í Belgíu, Hollandi, á Spáni og á Englandi. Hann hefur verið aðalþjálfari síðan 2016 þegar hann tók við HK og verið hjá ÍA frá árinu 2018. Sem leikmaður lék hann 34 A-landsleiki. Þess má geta að hann er faðir landsliðsmannsins Ísaks Bergmanns sem spilar með FCK í Danmörku.

Tilkynning ÍA í heild:
Knattspyrnufélag ÍA veitti þjálfara meistaraflokks karla, Jóhannesi Karli Guðjónssyni, leyfi fyrir stuttu til að ræða við KSÍ um starf aðstoðarlandsliðsþjálfara A landsliðs karla. Jóhannes Karl hefur ákveðið að taka boði KSÍ og mun því láta af störfum hjá ÍA.

Knattspyrnufélag ÍA mun á næstu dögum ákveða hver tekur við af Jóhannesi Karli en á meðan mun þjálfarateymi meistaraflokks karla undir stjórn Guðlaugs Baldursson, aðstoðarþjálfara, stjórna æfingum og leikjum liðsins. Í þessum breytingum felast áskoranir fyrir félagið, stuðningsmenn og leikmenn, en það er markmið félagsins að leysa úr stöðunni á farsælan hátt þannig að félagið komi öflugt til leiks á komandi Íslandsmóti. Það er stefna ÍA að vera
í fremstu röð í knattspyrnu á Íslandi.

Jóhannes Karl verður þar með einn af mörgum þjálfurum Knattspyrnufélags ÍA sem hafa farið til starfa hjá Knattspyrnusambandi Íslands. Það eitt og sér er viðurkenning á starfi félagsins en félagið leggur áherslu á að fá til starfa vel menntaða og hæfa þjálfara. Knattspyrnufélag ÍA þakkar Jóhannesi Karli Guðjónssyni góð störf fyrir félagið sl. ár og óskar honum góðs gengis á nýjum vettvangi.

Tilkynning KSÍ:
Jóhannes Karl Guðjónsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari A landsliðs karla og hefur hann þegar tekið til starfa.

Jóhannes, er með KSÍ A þjálfaragráðu og lýkur UEFA Pro gráðu í vor. Næsta verkefni A landsliðs karla eru tveir vináttuleikir á Spáni í mars – fyrst gegn Finnum á Stadium Enrique Roca í Murcia 26. mars og síðan gegn Spánverjum 29. mars, á Riazor-leikvanginum í Coruna.

KSÍ býður Jóhannes Karl velkominn til starfa.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner