
ÍBV vann góðan útisigur á Þór í Lengjudeildinni í dag en liðið situr í 2. sæti. Fótbolti.net ræddi við Hermann Hreiðarsson þjálfara liðsins eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Þór 0 - 3 ÍBV
„Geggjuð frammistaða og þvílíkt hugarfar fyrir leikinn. Ekki frábærar aðstæður, þungur völlur, en við vorum alltaf með leikinn fannst mér," sagði Hemmi.
Hemmi var í banni í dag og horfði því á leikinn úr stúkunni. Hvernig leið þér upp í stúku?
„Aldrei jafn afslappaður," sagði Hemmi léttur í bragði. „Nei nei, það er alltaf aðeins erfiðara en manni líður alltaf vel þegar liðið er í takti. Þetta var ekkert fallegt en 'professional' frammistaða," sagði Hemmi.
Sverrir Páll Hjaltested og Oliver Heiðarsson voru frábærir í fremstu víglínu Eyjamanna í dag.
„Ef eitthvað er þá hefðu þeir getað skorað fleiri en þrjú mörk frá framherjum er frábært. Þetta var verðskuldað, þeir unnu fyrir því og unnu vel fyrir liðið eins og allir aðrir. Það er geggjað þegar framherjarnir skora," sagði Hemmi.