
Sædís Rún Heiðarsdóttir var í byrjunarliðinu og lék allan leikinn er Vålerenga lagði Kolbotn naumlega að velli í efstu deild norska boltans.
Vålerenga er langefsta lið deildarinnar og var sterkari aðilinn gegn Kolbotn í dag, en tókst ekki að skora fyrr en á lokamínútum leiksins.
Sædís Rún lék á vinstri kantinum og hefur hún verið mikið í kringum byrjunarliðið eftir að Vålerenga fékk hana til sín úr röðum Stjörnunnar.
Vålerenga er með 54 stig eftir 20 umferðir á deildartímabilinu, með 17 stiga forystu á Rosenborg í öðru sæti sem á þó tvo leiki til góða.
Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir og Katla María Þórðardóttir voru þá báðar í byrjunarliði Örebro sem sigraði Íslendingaslag gegn Linköping í efstu deild í Svíþjóð, en María Catharina Ólafsdóttir Gros var í byrjunarliði gestanna.
Linköping var talsvert sterkara liðið í leiknum en tókst ekki að nýta þau fjölmörgu færi sem voru sköpuð og urðu lokatölur 2-1 fyrir Örebro.
Þetta er afar dýrmætur sigur fyrir Örebro sem er í harðri fallbaráttu, með 12 stig eftir 17 umferðir, en Linköping siglir nokkuð lygnan sjó um miðja deild - níu stigum fyrir ofan fallbaráttuna.
Kolbotn 0 - 1 Valerenga
Orebro 2 - 1 Linkoping
Athugasemdir