Phil Jones, fyrrum leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, segir að það yrði séð sem veikleikamerki ef Ruben Amorim tæki ákvörðun um að breyta leikkerfi.
Amorim hefur verið mjög ákveðinn með að spila með þriggja manna vörn.
Portúgalinn hefur óbilandi trú á að hann geti náð árangri með United með þetta leikkerfi, en eftir frammistöðuna gegn D-deildarliði Grimsby í gær hafa margir spurt sig hvort nú sé nóg komið af þessu leikkerfi.
Jones segir að margir gætu séð það sem veikleikamerki ef hann skiptir um leikkerfi.
„Alveg 100 prósent. Það verður horft á það sem veikleikamerki ef hann breytir um kerfi og það á við hvern sem er sem kemur inn og er fastur á kerfinu. Það er bara í góðu lagi því hann var fenginn inn til þess að gera þetta.“
„Eitt getur leitt að öðru ef þú pressar ekki rétt í þriggja manna vörn. Það mun gerast um allan völl því allt í einu eftir tvær eða þrjár sendingar þá verður þetta svo ósamanhangandi.“
„Í leiknum gegn Arsenal var frammistaðan með og án bolta mjög góð og maður gat séð bætingu frá síðasta tímabili. Engin spurning. Þeir voru betri gegn Fulham og gátu verið tveimur eða þremur mörkum yfir á fyrstu fimmtán mínútunum, en þetta var alls ekki nógu gott í kvöld (í gær),“ sagði Jones við BBC eftir leikinn.
Athugasemdir