Jose Mourinho, þjálfari Fenerbahce í Tyrklandi, var nokkuð brattur þrátt fyrir að lið hans hafi misst af sæti í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Lærisveinar Portúgalans töpuðu fyrir Benfica, 1-0, eftir að hafa gert markalaust jafntefli í fyrri leiknum.
Mourinho segir það alls ekki vera slæmt að hafa dottið út í kvöld enda gefur það þeim betri möguleika á því að vinna Evrópudeildina.
„Ef við hefðum farið í Meistaradeildinni þá myndum við líklegast bara spila átta leiki, en við gætum farið alla leið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar,“ sagði Mourinho.
Fenerbahce hefur aðeins einn Evróputitil í 118 ára sögu félagsins, sem telst með minni titlum en félagið vann Balkan-bikarinn árið 1966 eftir að hafa sigrað AEK frá Grikklandi í úrslitum. Besti árangur Fenerbahce í Meistaradeildinni kom árið 2008 er liðið fór í 8-liða úrslit og þá komst það í undanúrslit Evrópudeildarinnar árið 2013 en tapaði fyrir Benfica.
Athugasemdir