André Onana, markvörður Manchester United, átti enga frábæra innkomu inn í byrjunarlið liðsins í deildabikarnum í gær og margir á því að hann hafi verið að spila mögulega sinn síðasta leik.
Onana var ekki í byrjunarliðinu í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins þrátt fyrir að vera búinn að ná sér af meiðslum.
Amorim valdi einfaldlega að nota Altay Bayindir sem hefur ýtt enn frekar undir það að Onana sé á förum.
Kamerúninn fékk tækifærið í liðinu í gær og átti einhverja sök í báðum mörkunum sem það fékk á sig í leiknum, en Amorim neitar að skella skuldinni á hann.
„Svona með fullri virðingu þá er það ekki markmanninum að kenna ef þú tapar á móti D-deildarliði. Það er umhverfið og hvernig við mætum andstæðingnum.“
„Við vitum að við erum á því augnabliki þar sem allir munu fylgjast með öllu því sem við gerum. Hvert einasta smáatriði verður massíft. Við sýndum þessa frammistöðu og fyrir mína parta þá voru leikmennirnir mjög háværir í tali sínu,“ sagði Amorim.
Athugasemdir