sun 29. janúar 2023 19:00
Ívan Guðjón Baldursson
De Zerbi ósáttur ef Brighton kaupir ekki fyrir gluggalok
Mynd: EPA

Ítalinn Roberto De Zerbi talaði um ekvadorska miðjumanninn Moises Caicedo eftir 2-1 sigur Brighton gegn Liverpool í enska bikarnum í dag.


De Zerbi segist ekki vera ánægður með hegðun Caicedo sem ætlar að neyða Brighton til að selja sig fyrir lok janúargluggans. Caicedo er ósáttur með að Brighton hafi hafnað 60 milljón punda tilboði í sig og fór því fram á sölu.

Hann gerði það þó ekki með hefðbundnum hætti heldur birti hann þokkalega ruglandi færslu á Instagram reikningi sínum nokkrum dögum fyrir lok félagaskiptagluggans.

„Það er nógu erfitt fyrir mig að vera þjálfari, það væri alltof mikið að vera bæði þjálfari og forseti," svaraði De Zerbi þegar hann var spurður út í Caicedo. „Caicedo er mjög góður náungi og ég get skilið hann. Þegar þú ert 21 árs og færð svona tilboð þá skil ég að þú viljir fara.

„Ég vil að hann klári tímabilið með okkur og svo getur hann skipt um félag en við erum tilbúin til að halda áfram án hans. Ég hef rætt ítarlega við Tony Bloom (forseta Brighton) um þetta. Við erum enn með sterkt lið en viljum styrkja okkur meira.

„Við misstum Leandro Trossard og ef við missum Caicedo getur það verið vandamál fyrir okkur. Ef við viljum berjast um sæti í Evrópukeppni þá þurfum við að styrkja okkur. Við getum líka haldið hópnum eins og hann er en það er ekki nálgun sem mér líst vel á."

Arsenal keypti Trossard frá Brighton á afsláttarverði eftir að hann reifst við De Zerbi og núna virðist Arsenal einnig ætla að kaupa Caicedo, sem mun þó kosta um það bil tvöfalt meira heldur en Trossard.


Athugasemdir
banner
banner
banner