Ég er á miðsvæðinu og er búinn að skila mér í teiginn nokkrum sinnum og setja nokkur mörk, það er ólíkt mér
Leiknismaðurinn Hjalti Sigurðsson ræddi við Fótbolta.net eftir sigur gegn Þór í Lengjudeildinni í dag. Hjalti var besti maður vallarins í leiknum og lagði hann upp sigurmarkið með hornspyrnu á fimmtu mínútu uppbótartíma. Omar Sowe stangaði boltann í netið og skömmu síðar var flautað til leiksloka.
Lestu um leikinn: Leiknir R. 1 - 0 Þór
„Þetta er ógeðslega sætt, ótrúlegt hvernig þessi leikur spilaðist, endalaus af færum á bæði lið og þetta hlaut að detta öðru hvoru megin. Drullusætt að sjá það okkar megin."
„Nei, ég get ekki sagt (að ég hafi verið að miða á Omar Sowe í teignum), ég var að setja hann í svæðið, hættusvæðið og það gekk upp."
Stærsta atvik leiksins fram að sigurmarkinu var dauðafæri sem Hjalti fékk í upphafi seinni hálfleiks. Hann skaut í slána fyrir opnu marki og margir á því að boltinn hafi svo farið yfir línuna en hann snerist svo út í vítateiginn og ekkert dæmt. Viðtalið var tekið á marklínunni.
„Ég veit ekki (hvar boltinn lenti), eigum við ekki að segja að hann hafi lent inni eða? Þetta var allavega helvíti tæpt, held að línuvörðurinn hafi ekki verið mættur á línuna til að sjá það. Við verðum bara að sjá það aftur og skoða það. Maður hefði sofið lítið ef ég hefði klúðrað og við svo tapað þessum leik."
„Ég vonaði að flautið kæmi og mark yrði dæmt. Svo fékk Robbi annað færi í kjölfarið, þetta var helvíti svekkjandi."
Hjalti er á leið í háskóla eftir næsta leik Leiknis og ræddi um það í viðtalinu sem má sjá efst.
Hjalti er búinn að eiga nokkra góða leiki að undanförnu. „Ég er búinn að spila mjög vel, bæði ég og liðið erum búin að finna taktinn. Ég er á miðsvæðinu og er búinn að skila mér í teiginn nokkrum sinnum og setja nokkur mörk, það er ólíkt mér. Þetta er búið að vera mjög gott síðustu leiki."
„Í dag fannst mér við eiga hættulegri færi þótt þeir hafi átt breik og færi líka, meira klafs úr hornspyrnum og slíkt. Mér fannst við stjórna leiknum úti á velli, það auðvitað samt gefur ekki allt. Mér fannst við eiga skilið þetta lokamark og fannst það alltaf vera á leiðinni."
Þetta var fimmti sigur liðsins í síðustu sex leikjum og fjórði sigurinn í röð. „Þetta hefur tikkað í gang, lítið að ganga í byrjun, vorum að gefa ódýr mörk, mjög 'soft' og flestir að spila undir pari. Við erum búnir að einfalda leikinn okkar, farnir að spila aðeins þroskaðri fótbolta og þetta er byrjað að tikka."
Hvað er markmiðið það sem eftir er?
„Við settum okkur markmið fyrir tímabil að vera keppast um eitthvað í haust og það er geðveikt að fá sénsinn núna að komast í umspilið (2. - 5. sætið). Það leit ekki út fyrir það fyrir nokkrum leikjum. Markmiðið er að komast þangað og klára það. Ég treysti strákunum fyrir því," sagði Hjalti.
Viðtalið er lengra og má sjá það í heild sinni í spilaranum efst. Skot Hjalta í þverslána má sjá í spilaranum hér að neðan. Dæmi hver fyrir sig.
Athugasemdir























