mán 26. apríl 2021 23:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Vandræði með púls og eftirköst Covid í fyrra - „Sigga Beinteins er átrúnaðargoðið"
Fyrir Evrópuleik
Fyrir Evrópuleik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gaman að sjá stelpur á svipuðum aldri fara erlendis
Gaman að sjá stelpur á svipuðum aldri fara erlendis
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Í leik árið 2019
Í leik árið 2019
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vilhjálmur Kári Haraldsson tók við þjálfun Breiðabliks í vetur
Vilhjálmur Kári Haraldsson tók við þjálfun Breiðabliks í vetur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðrún Þóra Geirsdóttir
Guðrún Þóra Geirsdóttir
Mynd: Aðsend
Sonný Lára Þráinsdóttir hætti eftir síðasta tímabil
Sonný Lára Þráinsdóttir hætti eftir síðasta tímabil
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hildur Antonsdóttir með skemmtilegar staðreyndir
Hildur Antonsdóttir með skemmtilegar staðreyndir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir er komin á fulla ferð aftur eftir brösugt tímabil í fyrra. Hún glímdi við vandræði með púlsinn á sér og fékk svo Covid.

Hún lék með A-landsliðinu á dögunum og er nú að búa sig undir tímabil með Breiðabliki. Fréttaritari ræddi við hana fyrir tímabilið í fyrra og endurtók leikinn í ár.

Viðtalið í fyrra:
Áslaug Munda: Ætla mér klárlega einn daginn að spila erlendis

Covid og vandræði með púls
Byrjum þetta á síðasta tímabili. Hvers lags meiðsli varstu að glíma við? Komu bakslag í endurhæfingunni? Hvernig var að fylgjast með frá hliðarlínunni?

„Fyrir sumarið 2020 átti ég í miklum erfiðleikum með púlsinn minn og var ég að glíma við mikla þreytu við æfingar og daglegar athafnir. Það tók mig mjög langan tíma að ná mér en ég byrjaði að koma hægt og rólega inn í æfingar og leiki þegar líða fór á mótið," sagði Áslaug.

„Þegar ég var loksins komin á gott ról fékk ég högg á annan fótinn í 11. umferð sem gerði það að verkum að ég átti erfitt með að labba og þar með æfa nokkrar umferðir eftir það. Og ég kórónaði svo allt saman með því að enda tímabilið með Covid. Það er alltaf erfitt að sitja á hliðarlínunni og horfa á leiki en maður kann enn þá betur að meta leikinn þegar maður getur ekki tekið þátt í honum sjálfur."

Hvernig náðiru jafnvægi á púlsinn?

„Ég þurfti bara alveg að bakka út úr allri hreyfingu til að ná jafnvæginu áður en ég gat farið að vinna mig hægt og rólega inn í æfingar aftur en það tók frekar langan tíma."

Urðu einhver eftirköst af covid?

„Ég var í um það bil þrjá mánuði eftir að hafa fengið Covid að geta almennilega hlaupið og hreyft mig án þess að vera þreytt. Ég fékk frekar mikið í lungun á æfingum og var kalda loftið í desember ekki að hjálpa."

Pældi ekki í metinu
Hvernig var að vera hluti af liðinu í fyrra sem setti metið að halda lengst hreinu? Leið ykkur eins og þð væri ekki séns að hitt liðið myndi skora?

„Ég persónulega pældi ekkert í því að við værum að slá eitthvað met og ég held að enginn hafi mikið verið að pæla í því. Við spiluðum mjög góðan varnarleik, frá fremsta manni til þess aftasta sem skilaði sínu. Sonný var virkilega öflug á milli stanganna en það er ekki einfalt að koma boltanum framhjá henni."

Skemmtilegt að fylgjast með stelpum fara út
Þú framlengdir samninginn núna á dögunum, hvernig sérðu þína framtíð fyrir þér? Ertu með það sem markmið að fara út eftir tímabilið? Ertu í námi sem þú vilt klára áður en þú ferð út eða eitthvað slíkt?

„Ég er ekki í neinu námi eins og staðan er en planið er að mennta mig samhliða fótboltanum. Það hefur verið mjög skemmtilegt að fylgjast með stelpunum á mínum aldri fara út og heyra þeirra upplifanir á atvinnumennskunni og ég ætla mér að gera það sama einn daginn."

Þakklát að fá kallið aftur
Hvernig var að koma aftur inn í landsliðið og spila leiki eftr tæplega tveggja ára fjarveru?

„Ég er mjög þakklát að hafa fengið kallið aftur inn í landsliðshópinn. Eftir mjög svo svekkjandi ár 2020 var virkilega gaman að fá tækifæri á að spreyta sig með landsliðinu."

Varstu heilt yfir ánægð með verkefnið?

„Mér fannst liðið standa sig heilt yfir vel í leikjunum. Það komu kaflar í leikjunum þar sem við áttum að gera betur en liðið var að spila saman undir stjórn nýs þjálfara sem kemur inn með nýjar áherslur svo þetta tekur allt sinn tíma."

„Mér fannst mér ganga ágætlega í leikjunum. Margt sem mætti laga og margt sem fór ágætlega. Ég hlakka til að byrja að spila í deildinni hérna heima og bæta minn leik sem skilar mér vonandi fleiri landsleikjum."


Steni landsliðsþjálfari er eins og Steini Breiðabliksþjálfari
Hvernig er að hafa Steina áfram sem þjálfara, núna með landsliðinu? Fannst þér eins og að koma á æfingu með Breiðabliki þegar þú mættir á landsliðsæfingu eða var þetta allt öðruvísi?

„Það er mjög gaman að æfa undir stjórn Steina. Hann er mjög góður þjálfari sem hefur kennt mér mikið og er enn þá að. Steini landsliðsþjálfari er bara eins og Steini Breiðabliksþjálfari, hann heldur sig við sínar æfingar og sína taktík sem er frábært þar sem ég þekki það ágætlega."

Spennt fyrir komandi tímabili
Hvernig líst þér á komandi tímabil og hvernig er Villi að koma inn í hlutina?

„Ég er mjög spennt fyrir komandi tímabili. Villi fékk ekki auðvelt verkefni en hann tekur við frekar nýjum hópi stuttu fyrir mót en hann hefur gert sinn hlut mjög vel og ég er mjög spennt að æfa og spila undir hans stjórn í sumar."

Hvernig líst þér á leikmannahópinn?

„Við misstum mjög marga lykilleikmenn m.a. út í atvinnumennskuna eftir síðasta tímabil sem þýðir að margar aðrar fá stærra hlutverk og þurfa að stíga upp. Við fáum mikið til baka með Ástu Eir og Fjollu og verður spennandi að sjá endurkomu frá Selmu Sól og Hildi Antons ef allt gengur upp hjá þeim."

Ertu með eitthvað persónulegt markmið í sumar?

„Aðal markmiðið mitt er að haldast heil og ná að spila meira heldur en síðasta sumar og reyna að hjálpa liðinu að vinna titla eins og Breiðablik er þekkt fyrir."

Hvernig líst þér á deildina í heild sinni?

„Mér líst mjög vel á deildina. Mikið af flottum ungum leikmönnum að stíga upp en það verður spennandi að sjá hvernig mótið fer."

Er einhver sem er farin úr klefanum sem þú munt sakna að hafa upp á stemningu og húmor?

„Með Sonnýju fylgdi alltaf stuð og stemning en það var aldrei dauð stund í kringum hana."

Að lokum nokkrar spurningar úr hinni hliðinni.

Græddi mikið á því að æfa frjálsar
Finnst þér þú hafa grætt á því að hafa æft frjálsar? Hvað finnst þér þú hafa tekið með þér úr þeim æfingum?

„100%! Ég græddi mjög mikið á því að æfa frjálsar. Ég æfði frjálsar í um tíu ár og lærði margt á þeim tíma. Ég lærði t.d. hvernig á að hlaupa og ég bætti hraðann og stökkkraft svo eitthvað má nefna."

Staðreyndir Hildar geta bætt daginn til muna
Hvað gerir Hildi Antons svona fyndna? Er hún í eftirhermunum eða bara orðheppin?

„Hildur er mjög orðheppin. Svo veit hún svo mikið af skrítnum staðreyndum sem enginn þarf að vita og er gjörn á því að deila þeim með okkur hinum upp úr þurru. Ég hef mjög gaman af því en ein svoleiðis staðreynd frá Hildi getur bætt daginn manns til muna."

Guðrún gæti sprungið út
Hvað finnst þér um að Guðrún Þóra hafi samið við Selfoss, gott skref fyrir hana að fara þangað eftir tímabilið?

„Guðrún Þóra er mjög skemmtilegur leikmaður og finnst mér mjög gaman að sjá hana taka næsta skref. Ég held að hún eigi bara eftir að bæta sig og springa út á Selfossi ef hún heldur rétt á spöðunum."

Sigga Beinteins er átrúnaðargoðið
Þú ert fædd í Danmörku, er einhver Dani í þér fyrir utan rúgbrauðið?

„Nei því miður er lítill sem enginn Dani í mér fyrir utan rúgbrauðið."

Að lokum, hvað er það við Stjórnina sem heillar þig, færðu skot á þennan tónlistarsmekk með allt rappið og hip-hopið sem er í gangi í dag?

„Sigga Beinteins er átrúnaðargoðið mitt en hún og Grétar bæta og kæta með lögum sínum. Ég fæ af og til spurningar þar sem fólk er að efast um aldur minn en það er oftar út af talsmáta eða því sem ég borða heldur en tónlistarsmekk," sagði Áslaug.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner