Slúðurpakki dagsins - Það helsta í slúðrinu: Barcelona vill halda Rashford - Chelsea leiðir baráttuna um Vinicius
banner
   sun 11. janúar 2026 12:00
Kári Snorrason
Viðtal
Engin sárindi þótt Elías hafi valið Víking - „Erum með yngri bróður Arnórs og bindum vonir við hann“
Haraldur Freyr Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur.
Haraldur Freyr Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Keflavík tryggði sér sæti í Bestu deildinni með sigri á HK í úrslitum í umspili Lengjudeildarinnar.
Keflavík tryggði sér sæti í Bestu deildinni með sigri á HK í úrslitum í umspili Lengjudeildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
„Alls ekki útilokað að hann verði leikmaður okkar á næsta tímabili.“
„Alls ekki útilokað að hann verði leikmaður okkar á næsta tímabili.“
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elías Már er uppalinn Keflvíkingur.
Elías Már er uppalinn Keflvíkingur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keflavík hefur styrkt leikmannahóp sinn með fjórum nýjum leikmönnum fyrir komandi tímabil í Bestu deildinni. Haraldur Freyr Guðmundsson, þjálfari liðsins, segist ánægður með stöðuna en útilokar ekki að frekari liðsstyrkingar bætist við.

Keflvíkingar verða nýliðar í Bestu deildinni á næstu leiktíð eftir að hafa tryggt sér sæti meðal þeirra bestu með sigri á HK í úrslitum umspils Lengjudeildarinnar síðasta sumar.

Fótbolti.net ræddi við Harald Frey Guðmundsson, þjálfara Keflvíkinga, rétt fyrir helgi.

Hópurinn á góðum stað
„Við höfum sótt Breka Baxter, Baldur Loga, Halid Alghoul og Dag Inga Valsson, sem var hjá okkur. Síðan hafa einhverjir farið aðrar leiðir og verða ekki með okkur áfram. Við erum með marga unga og efnilega stráka úr öðrum flokki sem eru að æfa með okkur. Þetta mun þróast og mótast eins og venjan er,“ segir Haraldur en hann segir jafnframt félagið vera á höttunum eftir hafsent.

Þá hafa þeir Gunnlaugur Fannar Guðmundsson, Ari Steinn Guðmundsson, Stefán Jón Friðriksson, Valur Þór Hákonarson og Rúnar Ingi Eysteinsson farið frá félaginu.

„Ég myndi ekki halda að fleiri leikmenn séu á förum eins og er. Gulli, Ari Steinn, Kári og yngri leikmenn sem fengu minni tækifæri eru farnir. Ég held að hópurinn sé á ágætis stað eins og staðan er núna.“

Ekki útilokað að Kári verði áfram
Kári Sigfússon, var einn besti leikmaður liðsins á síðasta tímabili og er runninn út af samningi. Hann hefur litið í kringum sig, æfði meðal annars með KR í síðasta mánuði og það hefur verið greint frá áhuga á honum erlendis frá. Haraldur segir þó ekki útilokað að Kári verði leikmaður Keflavíkur á næsta tímabili.

„Við höfum haldið ágætis sambandi, hann var samningslaus um áramótin. Það var einhvers konar samtal milli hans og stjórnarinnar. Hann hefur verið að þreifa fyrir sér. Það er alls ekki útilokað að hann verði leikmaður okkar á næsta tímabili.“

Buðu Elíasi samning og ræddi við Arnór
Keflvíkingarnir tveir Elías Már Ómarsson og Arnór Ingvi Traustason eru báðir komnir heim úr atvinnumennsku. Elías gekk í raðir Víkings, en Arnór fór til KR.

„Það er ekkert leyndarmál að við reyndum að fá Elías - við höfum verið að leita eftir góðum senter, eins og kannski flest góð lið í heiminum. Ég þekki Elías vel, spilaði með honum á sínum tíma. Við hittumst og áttum gott spjall.

Við fórum í samningsviðræður við hann og buðum honum samning. Hann valdi að fara í Víking og taldi það rétta skrefið fyrir sig. Það er eins og það er, það er engin gremja í þessu. Auðvitað hefðum við viljað fá hann til okkar, verandi Keflvíkingur á besta aldri komandi úr atvinnumennsku - það hefði verið rómantískt.“


Þá segir Haraldur viðræður við Arnór ekki hafa farið jafn langt og með Elías: „Ég spjallaði bara við Arnór í síma. Það fór aldrei neitt lengra en það, við áttum aldrei í neinum samningsviðræðum við hann. En við erum með yngri bróðir hans í okkar herbúðum og væntum mikils af honum.“

Viktor Árni Traustason er yngri bróðir Arnórs, hann er átján ára og á enn eftir að leika sinn fyrsta meistaraflokksleik. Á síðasta ári fór Viktor út til bróður síns í Norrköping og æfði bæði með aðalliðinu og U-19 liðinu.
Athugasemdir
banner
banner