Það hefur verið mikið um að vera í evrópska boltanum í dag þar sem margir Íslendingar komu við sögu. Hákon Arnar Haraldsson var á sínum stað í byrjunarliði Lille sem rúllaði yfir Lorient í franska boltanum.
Staðan var markalaus eftir tíðindalítinn fyrri hálfleik en Lille skipti um gír í seinni hálfleiknum og endaði á að skora sjö mörk. Hákon skoraði fimmta markið í mögnuðum stórsigri.
Lokatölur urðu 1-7 fyrir Lille sem fer tímabundið á topp deildarinnar með þessum sigri. Hákon og félagar eiga 7 stig eftir 3 umferðir.
Hinn bráðefnilegi Mathias Fernandez-Pardo skoraði tvennu í sigrinum eftir að Romain Perraud skoraði fyrsta markið. Perraud lagði einnig upp markið fyrir Hákon Arnar.
Þá er Hamza Igamane nýkominn til Lille úr röðum Rangers. Hann kom inn af bekknum í leikhlé þegar staðan var markalaus og skoraði tvennu í seinni hálfleik.
Hlynur Freyr Karlsson var þá ónotaður varamaður í 3-0 sigri Brommapojkarna gegn Elfsborg í efstu deild sænska boltans. Júlíus Magnússon lék allan leikinn í liði Elfsborg á meðan Ari Sigurpálsson sat á bekknum.
Þetta er þriðji tapleikurinn í röð hjá Elfsborg og gæti liðið misst af Evrópusæti. Elfsborg er núna tveimur stigum frá Gautaborg.
Gautaborg vann 1-0 gegn Varnamo í dag og var Kolbeinn Þórðarson á sínum stað í byrjunarliðinu. Liðið er í harðri baráttu um Evrópusæti fyrir næstu leiktíð.
Gísli Eyjólfsson var þá ekki með vegna meiðsla þegar Halmstad tapaði naumlega gegn toppliði Mjällby. Halmstad er aðeins þremur stigum fyrir ofan fallsæti.
Í C-deildinni í Svíþjóð lék Óskar Tor Sverrisson allan leikinn í markalausu jafntefli hjá Ariana.
Þegar horft er til Englands kom Benóný Breki Andrésson inn af bekknum í jafntefli hjá Stockport County gegn Wigan í C-deildinni. Stockport er með 11 stig eftir 6 umferðir.
Í D-deildinni tapaði Grimsby þá heimaleik gegn Bristol Rovers, aðeins nokkrum dögum eftir að hafa slegið Manchester United úr leik í deildabikarnum. Jason Daði Svanþórsson var ekki með vegna meiðsla en Grimsby er með 11 stig eftir 6 umferðir.
Að lokum var Tómas Bent Magnússon ónotaður varamaður í sigri Hearts á útivelli gegn Livingston í efstu deild skoska boltans. Hearts er á toppi deildarinnar eftir sigurinn, með 10 stig úr 4 leikjum. Stórveldi Celtic er í öðru sæti með fullt hús eftir 3 leiki.
Lorient 1 - 7 Lille
0-1 Romain Perraud ('46)
0-2 Mathias Fernandez-Pardo ('53)
0-2 S. Soumano, misnotað víti ('64)
1-2 A. Tosin ('64)
1-3 Mathias Fernandez-Pardo ('77)
1-4 Hamza Igamane ('80)
1-5 Hákon Arnar Haraldsson ('87)
1-6 Hamza Igamane ('93)
1-7 Osame Sahraoui ('95)
Brommapojkarna 3 - 0 Elfsborg
Göteborg 1 - 0 Varnamo
Mjallby 1 - 0 Halmstad
Husqvarna 0 - 0 Ariana
Wigan 1 - 1 Stockport County
Grimsby 0 - 1 Bristol Rovers
Livingston 1 - 2 Hearts
Athugasemdir