Síðustu Íslendingaliðin eru búin að spila í dag þar sem Kristian Nökkvi Hlynsson lék allan leikinn í holunni fyrir aftan fremsta sóknarmann hjá FC Twente á útivelli gegn Excelsior.
Liðin mættust í efstu deild í Hollandi og misstu heimamenn í liði Excelsior miðvörð af velli með beint rautt spjald á 21. mínútu leiksins.
Twente sýndi gífurlega mikla yfirburði í leiknum en tókst ekki að nýta þann aragrúa af færum sem sköpuðust. Kristian átti flottan leik og var duglegur að skapa færi sem samherjar hans nýttu ekki.
Excelsior skoraði á lokakaflanum og stal þannig stigunum þremur. Afar svekkjandi fyrir Twente, sem er aðeins með þrjú stig eftir fjórar umferðir á nýju deildartímabili.
Í næstefstu deild í Þýskalandi spilaði Valgeir Lunddal Friðriksson fyrstu 78 mínúturnar í markalausu jafntefli hjá Fortuna Düsseldorf gegn Karlsruher. Düsseldorf er með fjögur stig eftir fjórar umferðir.
Hjörtur Hermannsson lék þá allan leikinn er Volos tapaði á heimavelli gegn Olympiakos í gríska boltanum. Volos er án stiga eftir tvær fyrstu umferðirnar.
Að lokum sigraði Anderlecht gegn Strasbourg er liðin mættust í æfingaleik. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir er á mála hjá Anderlecht.
Excelsior 1 - 0 Twente
Dusseldorf 0 - 0 Karlsruher
Volos 0 - 2 Olympiakos
Strasbourg 0 - 2 Anderlecht
Athugasemdir