Orri Steinn Óskarsson fékk tækifæri með byrjunarliði Real Sociedad þegar liðið heimsótti Real Oviedo í efstu deild spænska boltans í dag.
Real Sociedad var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en tókst ekki að skora. Þess í stað skoruðu heimamenn í liði Oviedo með einu marktilraun sinni sem hæfði rammann. Þar var á ferðinni fyrrum úrvalsdeildarleikmaðurinn Leander Dendoncker.
Orra Steini var skipt af velli á 56. mínútu en ekki tókst liðsfélögum hans að jafna metin í síðari hálfleiknum. Lokatölur urðu því 1-0 fyrir Oviedo, sem nýtti einu marktilraun sína sem hæfði rammann í leiknum.
Þetta eru fyrstu stig Oviedo á nýju deildartímabili á Spáni og er liðið með þrjú stig eftir þrjár umferðir. Einu stigi meira en Sociedad sem var búið að gera tvö jafntefli fyrir leik dagsins.
Á sama tíma hafði Sevilla betur á útivelli gegn Girona. Þetta er gríðarlega mikilvægur sigur fyrir Sevilla sem átti slakt tímabil á síðustu leiktíð og hafði byrjað nýtt tímabil á ósannfærandi máta.
Svissneski landsliðsmaðurinn Rubén Vargas lagði bæði mörk Sevilla upp gegn Girona, en leikurinn var opinn og skemmtilegur. Bæði lið fengu góð tækifæri til að skora en heimamenn í liði Girona klúðruðu nokkrum dauðafærum.
Sevilla er því með þrjú stig eftir þrjár fyrstu umferðirnar á nýju tímabili á meðan Girona situr eftir á botni deildarinnar, án stiga.
Oviedo 1 - 0 Real Sociedad
1-0 Leander Dendoncker ('40 )
Girona 0 - 2 Sevilla
0-1 Alfon Gonzalez ('30 )
0-2 Isaac Romero Bernal ('55 )
Athugasemdir