
Aðalsteinn Jóhann Friðriksson svaraði spurningum eftir gífurlega dýrmætan sigur Völsungs í Lengjudeildinni í dag.
Lestu um leikinn: Völsungur 2 - 0 Grindavík
Völsungur vann 2-0 í fallbaráttuslag gegn Grindavík sem kemur Húsvíkingum í frábæra stöðu. Sigurinn fleytir þeim fimm stigum uppfyrir fallsæti þegar aðeins tvær umferðir eru eftir af deildartímabilinu. Völsungur er þar með svo gott sem búinn að forðast fall úr deildinni.
Völsungur tapaði 7-2 gegn Keflavík í síðustu umferð.
„Ég er mjög ánægður með sigurinn. Það er svolítill munur á því að fara til Keflavíkur og fá á sig sjö mörk og að halda hreinu á heimavelli í næsta leik," sagði Alli Jói, sem er ánægður að losna undan fallbaráttunni.
„Ég ætla ekki að vera það hrokafullur að standa hérna og segja það að Völsungur átti ekki að vera í einhverri fallbaráttu eða séu stærri og meiri en einhverjir aðrir. Þetta er bara hörkuerfitt mót og ég væri til í að vera með fleiri stig á þessum tímapunkti. Auðvitað gæti vel verið að við höfum líka náð í einhver stig sem við áttum ekki skilið, ég veit það ekki.
„Í grunninn er ég ánægður með að umtalið um Völsung hefur breyst. Fyrir tímabilið vorum við ekki taldir líklegir, við áttum ekki að gera mikla hluti. Við áttum að falla í tólfta sæti. Menn fóru að rifja upp síðast þegar við vorum í deildinni og hvort við næðum að toppa það. Við notuðum þetta svolítið sem bensín fyrir okkur í sumar."
Alli Jói ræddi að lokum um Inigo Albizuri sem fór meiddur af velli snemma leiks í dag. Hann verður líklega ekki með í síðustu tveimur umferðum sumarsins.
„Ég kíkti á hann á sjúkrahúsinu áðan en hann fór bara úr axlarlið. Hann er svo ægilega mikill stríðsmaður að hann sjálfsögðu ætlaði bara að spila áfram. Hann fór hreint úr lið og er kominn aftur í lið, svo kemur bara í ljós hvað framhaldið ber í skauti sér með það."
Athugasemdir