Liverpool undirbýr mettilboð í Alexander Isak - Rasmus Höjlund nálgast Napoli
   lau 30. ágúst 2025 18:14
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Selfoss skellti Þór í mikilvægum slag
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Selfoss 3 - 2 Þór
0-1 Ibrahima Balde ('42)
1-1 Aron Fannar Birgisson ('53)
2-1 Harley Willard ('58)
2-2 Sigfús Fannar Gunnarsson ('66, víti)
3-2 Aron Lucas Vokes ('90)

Lestu um leikinn: Selfoss 3 -  2 Þór

Selfoss og Þór áttust við í hörkuslag í Lengjudeildinni í dag þar sem gríðarlega mikið var undir fyrir bæði lið. Þór er í harðri titilbaráttu á meðan Selfoss er í bullandi fallbaráttu.

Leikið var á Selfossi og var lítið að frétta í fyrri hálfleiknum. Gestirnir frá Akureyri voru sterkari aðilinn og tók Ibrahima Balde forystuna skömmu fyrir leikhlé. Hann lék á Robert Blakala markvörð Selfyssinga eftir góðan undirbúning frá Rafael Victor.

Heimamenn mættu grimmir út í seinni hálfleikinn. Jón Daði Böðvarsson komst nálægt því að jafna metin áður en Aron Fannar Birgisson skoraði með skoti sem fór beint á Aron Birki Stefánsson markvörð Þórsara. Hann réði þó ekki við skotið frá nafna sínum og hefði átt að gera mun betur.

Selfyssingar gengu á lagið og tóku forystuna fimm mínútum síðar. Í þetta skipti skoraði Harley Willard með laglegu skoti.

Selfoss var sterkara liðið í síðari hálfleik en Þórsarar fengu dæmda vítaspyrnu eftir að hafa lent undir. Sigfús Fannar Gunnarsson skoraði af vítapunktinum og staðan því orðin jöfn á 66. mínútu leiksins.

Hart var barist á lokakaflanum og voru heimamenn í liði Selfoss hættulegri þó að lítið hafi verið um færi. Þegar allt virtist stefna í jafntefli tókst Aron Lucas Vokes að gera sigurmark fyrir Selfoss á 90. mínútu. Hann skoraði eftir gott einstaklingsframtak þar sem varnarmenn Þórs réðu engan veginn við Aron.

Þór reyndi að jafna muninn á ný í uppbótartíma en tókst ekki, svo lokatölur urðu 3-2. Magnaður sigur fyrir Selfoss sem bindur enda á svakalega sigurhrinu Þórsara.

Selfoss klifrar aftur upp úr fallsæti með þessum sigri. Liðið er núna með 19 stig, tveimur stigum fyrir ofan fallsvæðið þegar tvær umferðir eru eftir.

Þór hafði unnið fimm leiki í röð fyrir tapið í dag. Akureyringar voru með 7 sigra og 1 jafntefli í 8 leikjum áður en þeir voru sigraðir á Selfossi.

Þór missir af tækifæri til að endurheimta toppsætið og situr í þriðja sæti eftir tapið, tveimur stigum á eftir toppliði Þróttar R í ótrúlega jafnri og spennandi titilbaráttu.
Athugasemdir
banner
banner