Branthwaite á lista Man Utd - Lampard vill ræða við Rangers - Messi ætlar að klára ferilinn í Argentínu
   mið 31. maí 2023 14:37
Fótbolti.net
Völdu lið ársins í enska, þrjá bestu leikmennina og fleira
Haaland er leikmaður ársins.
Haaland er leikmaður ársins.
Mynd: Man City
Rodri var öflugur.
Rodri var öflugur.
Mynd: EPA
Martin Ödegaard.
Martin Ödegaard.
Mynd: EPA
Eddie Howe er stjóri tímabilsins.
Eddie Howe er stjóri tímabilsins.
Mynd: Getty Images
Bukayo Saka er besti ungi leikmaðurinn.
Bukayo Saka er besti ungi leikmaðurinn.
Mynd: EPA
Mykhaylo Mudryk átti ekki góða innkomu hjá Chelsea.
Mykhaylo Mudryk átti ekki góða innkomu hjá Chelsea.
Mynd: Getty Images
Úr 7-0 sigri Liverpool á Man Utd.
Úr 7-0 sigri Liverpool á Man Utd.
Mynd: Getty Images
Roy Hodgson, endurkoma ársins. Gerði frábæra hluti eftir að hann tók aftur við Crystal Palace.
Roy Hodgson, endurkoma ársins. Gerði frábæra hluti eftir að hann tók aftur við Crystal Palace.
Mynd: Getty Images
Ensku úrvalsdeildinni lauk síðasta sunnudag. Lokaumferðin var þá spiluð í heild sinni. Flestallt var ráðið fyrir lokaumferðina fyrir utan það hvaða lið myndi enda í sjöunda sæti og hvaða lið myndu falla með Southampton.

Það fór þannig að Aston Villa náði síðasta Evrópusætinu og Leeds og Leicester féllu úr deildinni.

Í síðasta þætti af Enski boltinn hlaðvarpinu var lið ársins í ensku úrvalsdeildinni valið ásamt því að önnur verðlaun voru veitt. Hér fyrir neðan má sjá lið ársins sem var valið í þættinum.Leikmaður ársins er auðvitað Erling Braut Haaland, sóknarmaður Manchester City, sem setti nýtt met yfir flest mörk skoruð á einu tímabil í ensku úrvalsdeildinni. Hann var að spila sitt fyrsta tímabil í deildinni og er árangurinn hjá honum magnaður.

Þrír bestu leikmenn ársins:
1. Erling Haaland (Man City)
2. Rodri (Man City)
3. Martin Ödegaard (Arsenal)

Besti ungi leikmaðurinn er Bukayo Saka, leikmaður Arsenal, sem átti virkilega gott tímabil á kantinum hjá Lundúnafélaginu.

Þá voru þrír bestu stjórar ársins valdir en það var gríðarlega erfitt val. Að lokum var Eddie Howe valinn stjóri tímabilsins en hann kom liðinu í Meistaradeildina.

Pep Guardiola, sem stýrði Manchester City til Englandsmeistaratitils, komst ekki á topp þrjá listann yfir stjóra tímabilsins þó svo hann hafi unnið þau verðlaun í þriðja sinn hjá samtökum stjóra á Englandi í gær.

„Pep Guardiola fer inn í hvert ár og á að vinna þennan titil. Hann er með langmestu peningana, langbesta leikmannahópinn og allt annað en að hann vinni þessa deild er bara skandall," sagði Jón Júlíus Karlsson, framkvæmdastjóri Grindavíkur, í þættinum en þarna er bara verið að velja stjóra ársins í ensku úrvalsdeildinni. Guardiola á gríðarlega mikið hrós skilið fyrir þetta tímabil þar sem City er mjög líklegt til að vinna þrennuna.

Stjórar tímabilsins:
1. Eddie Howe (Newcastle)
2. Mikel Arteta (Arsenal)
3. Unai Emery (Aston Villa)

Einnig var rætt um Roberto De Zerbi, Gary O'Neil, Marco Silva og auðvitað Guardiola í þessum flokki. Julen Lopetegui sem kom Úlfunum af botninum á líka skilið stórt hrós.

„Það var erfitt að velja stjóra tímabilsins," sagði Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson.

Bestu og verstu kaupin
Bestu kaup tímabilsins voru einnig rædd og þar voru nokkrir sem komu til greina. „Það er einn framherji sem skorar 36 mörk," sagði Sæbjörn Steinke og átti þar við Erling Haaland. „Ég vil líka segja Casemiro, hann er geggjaður."

Haaland eru bestu kaupin en hann var keyptur frá Borussia Dortmund til Man City.

Einnig var rætt um verstu kaupin og var minnst á Richarlison sem var keyptur til Tottenham á 60 milljónir punda en skoraði bara eitt mark í ensku úrvalsdeildinni. Einnig var minnst á Mikhaylo Mudryk sem var keyptur á 100 milljónir evra til Chelsea í janúar en gerði nákvæmlega ekki neitt.

„Ég held að það sé ekki sanngjarnt gagnvart þessum flokki að hafa Chelsea með í honum þar sem það var allt tóm þvæla sem gerðist þar," sagði Jón Júlíus. „Það er hægt að taka topp tíu kaupin og þau eru öll frá Chelsea."

Antony var líka keyptur til Man Utd á um 100 milljónir evra en gerði ekki mikið til að standa undir þeim verðmiða. Einnig var rætt um Darwin Nunez sem var keyptur á mikinn pening til Liverpool.

Hvað kom mest á óvart?
Þá var spurt hvað hefði komið mest á óvart á tímabilinu? „Chelsea," svaraði Sæbjörn en Chelsea átti hörmulegt tímabil og endaði í tólfta sæti.

„Það kemur líka á óvart hversu lélegir Liverpool voru á kafla, hvernig aðferðafræðin hjá Klopp strandaði hjá leikmannahópnum. Margir þarna eru ekki lengur með hlaupagetuna til að spila Klopp fótboltann," sagði Jón Júlíus.

„Svo eru tvö úrslit sem má nefna þarna; 7-0 sigur Liverpool á Manchester United og þessi gjörsamlega galni sigur Everton á Brighton. Það kom algjörlega upp úr þurru," sagði Sæbjörn.

„Það kemur líka á óvart - á jákvæðum nótum - hversu vel gengur hjá Arsenal og Newcastle," sagði Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson í þættinum.

Endurkoma og ummæli ársins
Það var einfalt val, Roy Hodgson. Hann sneri aftur til Crystal Palace og lyfti liðinu heldur betur aftur upp. „Þvílíkur meistari, þvílikur kóngur að koma til baka," sagði Guðmundur.

Þá voru einnig veitt verðlaun fyrir ummæli ársins en Nathan Jones, stjóri Southampton, fékk þau. Hann átti ansi mörg góð ummæli áður en hann var rekinn. Meðal annars: „Þeir voru tíu inn á vellinum og það varð okkur að falli. Það bætti við pressu fyrir okkur."

Þessi ummæli lét Jones falla eftir 2-1 tap gegn Úlfunum þar sem lið hans var einum fleiri lengst af. Liðið komst 1-0 yfir en tapaði 2-1. Hann kenndi rauða spjaldinu um. Hvernig er hægt að ætlast til þess að Southampton vinni með fleiri leikmenn inn á vellinum?

Jones talaði líka um trú sína á guð og velskar konur í viðtölum sínum. Því miður þá er hann líklega ekki á leiðinni aftur í ensku úrvalsdeildina á næstu árum, líklega aldrei aftur. Sam Allardyce átti líka góð ummæli eftir að hann tók við Leeds þar sem hann sagðist ekki vera síðri en Pep Guardiola og Jurgen Klopp.

Hægt er að hlusta á allan þáttinn í heild sinni hér að neðan. Óhætt að mæla með hlustun.
Enski boltinn - Verðlaun veitt eftir að veislan kláraðist
Athugasemdir
banner