Verður áfram í Stjörnunni
Eggert Aron Guðmundsson hefur sterklega orðaður frá Stjörnunni síðustu tvo mánuði. Eggert hefur verið lykilmaður í liði Stjörnunnar síðustu tvö ár, spilað virkilega vel og vakið verðskuldaða athygli fyrir sínar frammistöður.
Eggert er nítján ára fjölhæfur miðjumaður sem vakti einnig mikla athygli á EM U19 landsliða í sumar. Þar var hann besti leikmaður íslenska liðsins og skoraði mjög svo eftirminnilegt mark.
Sjá einnig:
Sjáðu sturlað mark Eggerts gegn Norðmönnum - „GOLAZO“
Eggert er nítján ára fjölhæfur miðjumaður sem vakti einnig mikla athygli á EM U19 landsliða í sumar. Þar var hann besti leikmaður íslenska liðsins og skoraði mjög svo eftirminnilegt mark.
Sjá einnig:
Sjáðu sturlað mark Eggerts gegn Norðmönnum - „GOLAZO“
Síðustu daga hefur verið mikið rætt og ritað um framtíð Eggerts. Fjallað hefur verið um áhuga danska félagsins Lyngby og Haugasunds í Noregi en áhugi hefur verið frá mun fleiri félögum.
Þar sem glugginn í mörgum löndum í Evrópu lokar í kvöld hleraði Fótbolti.net stöðuna á Eggerti í dag. Helgi Hrannar Jónsson, formaður meistaraflokksráðs Stjörnunnar, fór yfir stöðuna.
Áhuginn jókst eftir EM í sumar
„Staðan er þannig að það hafa mörg lið sýnt honum áhuga, bæði núna í sumar og fyrir sumarið en áhuginn jókst sannarlega eftir frábæra frammistöðu hans með U19 ára liðinu," sagði Helgi.
Hann sagði frá því í síðustu viku að fjölmörg tilboð hefðu borist í leikmanninn og ítrekaði það í dag. „Ég get staðfest að það hafa komið mörg tilboð í Eggert núna í sumar, enda er hann búinn að eiga frábært tímabil með okkur í Stjörnunni og U19 ára liðinu fyrr í sumar."
Eggert hefur ekki bara vakið athygli fyrir sínar góðu frammistöður í sumar heldur einnig fyrir hugarfarið á vellinum og almennt viðhorf inn á vellinum. Áhorfendur hafa tekið eftir því að Eggert er baráttuglaður en það er alltaf mjög stutt í brosið!
„Eitthvað sem hvorki Eggert né við viljum"
Hvernig metur Helgi stöðuna þar sem gluggadagur er í mörgum löndum?
„Eins og þú segir þá er gluggadagur á flestum mörkuðum og það er aldrei gott að vinna svona mál undir einhverri tímapressu. Það er eitthvað sem hvorki Eggert né við viljum."
Aðspurður segir Helgi að áhuginn sé mikið til frá Skandinavíu; Noregi, Danmörku og Svíþjóð.
„Það hafa útsendarar frá bæði Hollandi og Belgíu verið að fylgjast með honum en þau tilboð sem bárust komu frá félögum í Skandinavíu."
Hafa átt í góðum viðræðum
Hefur Stjarnan samþykkt eitthvað af þessum tilboðum?
„Það er í raun og veru erfitt fyrir mig að svara því öðruvísi en svo að ég get staðfest að við höfum átt í góðum viðræðum við nokkur félög."
Helgi var, eftir þetta pólítíska svar, spurður hvernig hann mæti framhaldið varðandi Eggert. Helgi hélt sig áfram á pólítísku nótunum.
„Ég met það þannig að það er sjaldgæft að við sjáum leikmenn eins og Eggert spila í deildinni okkar og að við ættum að njóta þess á meðan svo er, hann er drengur sem er gríðarlega metnaðarsamur og stöðugt að leitast eftir því að bæta sinn leik og er tilbúinn að leggja afar mikið á sig og þess vegna er ég sannfærður um að honum muni vegna vel."
Eggert vill ekki ana að neinu
Er ljóst að hann klárar ekki tímabilið með Stjörnunni?
„Nei, það er alls ekki ljóst og eins og ég hef svo sem sagt áður að þá er Eggert þannig náungi að hann vill skoða sín mál afar vel og ekki ana að neinu og hefur náttúrulega fengið mikla athygli fyrir sína spilamennsku og er ljóst í mínum huga að hann mun taka skrefið út en á hvaða tímapunkti það verður er alfarið hans val."
„Honum líður vel í Stjörnunni og er þrátt fyrir ungan aldur einn af leiðtogum liðsins sem er hlutverk sem hann hefur tæklað vel enda kominn með mikla reynslu nú þegar."
Er það þá rétt skilið að Stjarnan hafi þá neitað öllum tilboðum í leikmanninn?
„Menn verða að eiga það við sig hvernig þeir meta stöðuna en félagið hefur í raun og veru unnið þetta í fullu samráði við leikmanninn og hans umboðsmenn."
Eggert hafnaði sjálfur öllum tilboðum
Þýðir þetta þá að það sé möguleiki á því Eggert hreinlega klári tímabilið með Stjörnunni?
„Það er klárt, hans vilji er að klára tímabilið með sínu félagi og halda áfram að byggja ofan á það sem við höfum gert hingað til. Við erum náttúrulega ótrúlega stolt af þeim mikla áhuga sem honum hefur verið sýndur hjá öflugum klúbbum en aðallega yfir því hversu rólegur og yfirvegaður hann hefur verið í kringum þessa umræðu alla."
„Niðurstaðan er síðan sú að hann hefur ákveðið að halda áfram hjá okkur og vill komast lengra með sínu uppeldisfélagi og þess vegna hefur hann hafnað þeim tilboðum sem hafa borist og vill gefa sér betri tíma til að ákveða næstu skref hjá sér."
„Það gleymist oft að hann er einungis 19 ára og fæddur 2004. Við í Stjörnunni munum styðja hans ákvörðun og það er ljóst að fólkið í Garðabænum, Silfurskeiðin og aðrir munu gleðjast mikið yfir því að fá að fylgjast áfram með honum á Samsungvellinum."
„Það er sjaldgæfara en ekki í dag að sjá unga leikmenn hafa kjark til þess að skoða málin í þaula og vilja vanda sig mjög vel þegar tækifærin koma og það er nákvæmlega það sem Eggert er að gera og við styðjum það alla leið."
Vita að Eggert fer fyrr eða síðar
Áhugavert að nítján ára leikmaður taki þessa afstöðu. Þið hljótið að vera ánægðir með þessa niðurstöðu, eða hvað?
„Við erum á frábærum stað og Eggerti líður vel eins og sést á hans frammistöðu, þannig að við erum auðvitað ánægðir með þessa ákvörðun sem hann hefur tekið, en við vitum líka að miðað við þann áhuga sem hefur verið á honum þá er líklegt að hann taki skrefið fyrr en síðar og þá munum við fagna því eins og við höfum gert þegar okkar strákar hafa ákveðið að stíga það skref."
„Framundan er úrslitakeppni þar sem við ætlum okkur stóra hluti og svo er hann á leiðinni í U21 landsliðsverkefni sem eru spennandi. Þannig að það er nóg framundan á þeirri vegferð sem við hófum 2020 þegar við ákváðum að breyta talsvert taktinum í hvernig við nálgumst verkefnið og það er gaman að sjá það ganga upp með þeim hætti sem við höfum verið að sjá," sagði Helgi Hrannarr að lokum.
Eggert ætti því að vera til taks þegar Stjarnan mætir Keflavík í 22. umferð Bestu deildarinnar á sunnudag.
Samkvæmt Transfermarkt hefur hann spilað 68 leiki fyrir Stjörnuna í öllum keppnum, skorað þrettán mörk og lagt upp sex. Á þessu tímabili hefur hann spilað nítján deildarleiki og þrjá bikarleiki og verið í byrjunarliðinu í þeim öllum.
Ljóst er að áhuginn á Eggerti var mjög mikill og verður áfram. Það verður fróðlegt að sjá hvert næsta skref Eggerts á ferlinum verður þegar hann tekur það. Hann er samningsbundinn Stjörnunni út næsta tímabil.
Sjá einnig:
„Ég mun ekki fara neitt nema það komi eitthvað geðveikt"
Einn hæfileikaríkasti leikmaður sem við Íslendingar eigum
Athugasemdir