Man Utd á eftir De Ligt - Greenwood eftirsóttur - Olise nálgast Chelsea - Mourinho vill fá Lindelöf
   mið 09. mars 2011 08:30
Benedikt Bóas Hinriksson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Verra en Hringekjan
Benedikt Bóas Hinriksson
Benedikt Bóas Hinriksson
Mynd: Getty Images
Fleiri að lýsa en að horfa.
Fleiri að lýsa en að horfa.
Mynd: Skjámynd af heimasíðu RÚV
Engin mæting í Mosfellsbæinn.
Engin mæting í Mosfellsbæinn.
Mynd: Skjámynd af heimasíðu RÚV
Þessi pistill birtist svona seint vegna þess að í hvert sinn sem ég hef reynt að setjast niður fyrir framan tölvuna þá hef ég gengið af göflunum. Það er bara ekkert öðruvísi. En ég ætla að reyna að halda ró minni. Ég er alveg RÚV-ari og líkar margt sem RÚV gerir. Síðasta laugardag lauk ég þó hreinlega keppni.

Ríkissjónvarpið bauð þá uppá Futsal-mót framhaldsskólanna í beinni útsendingu. Maður þarf í rauninni að skrifa þetta aftur til að trúa þessu. Futsal-mót framhaldsskólanna!

Það má ekki gleyma að það er almenningur sem borgar brúsann og því er virklega svekkjandi þegar maður telur saman alla aurana sem hirtir eru af manni árlega. Futsal-mót framhaldsskólanna? Baggalúts-menn hefði ekki einu sinni ímyndunarafl í að fíflast með svona sjónvarpsefni ef þeir væru dagskrárstjórar RÚV.

RÚV hefur skorið margt niður. Ef við höldum okkur við framhaldskólaanna má benda á að RÚV slaufaði söngkeppni framhaldsskólanna. Það er eitthvað sem fullt af fólki horfir á, margir tala um og skólarnir fjölmenna til að sjá. Ef RÚV vill virkilega sinna framhaldsskólum, hvers vegna var þá ekki haldið áfram með söngkeppnina? Þar var alltaf fullur salur á meðan ekki kjaftur var í Mosfellsbænum að horfa á Futsalið. Einu sem sátu í stúkunni voru liðin sem voru að bíða eftir að spila næsta leik. Meira að segja Verzlingar sem mæta nú á allt létu ekki einu sinni sjá sig. Það vantaði bara Góa á staðinn til að lýsa þessu. Þá hefði þetta getað farið í hring og orðið snilld.

Áhuginn á mótinu var svo lítill að ekki bara höfðu nemendur skólanna minnstan áhuga á að mæta. Keppendur sjálfir lögðu engan metnað í þetta. Einn skólinn hafði skellt sér á djammið, daginn fyrir keppni. Þess til sönnunnar viðurkenndi leikmaður liðsins það í sjónvarpsviðtali eftir einn leikinn. Setningin var náttúrulega óborganleg: ,,Við erum alveg ógeðslega þunnir.“ Hann skammaðist sín ekkert enda leit hann á þetta mót sem grín. Eins og allir gerðu. Það er að segja allir aðrir en RÚV.

Maður hefur fulla ástæðu til að reiðast út í RÚV þegar þeir gera svona upp á bak. Þennan laugardaginn var einfaldlega verið að kveikja í peningum. Haldiði að þetta sé ódýrt? Þarna var maður að lýsa leikjunum, aðstoðarlýsir, maður á gólfi, nokkrar myndavélar sem þarf auðvitað að manna auk fólks í tæknibílnum að ógleymdu fólkinu upp í Efstaleiti sem tók við myndunum þar. Ég þekki nefnilega aðeins til hvað þarf til þess að koma einum fótboltaleik heim í stofu. Það kemur fólki alltaf jafnmikið á óvart hversu margir standa að einni útsendingu. Og öllum þarf að borga. Borga með okkar peningum.

Þetta var hrikalegt sjónvarpsefni. Svo má ekki gleyma einu: Þetta var ekkert úrslitadagurinn, heldur undanriðlar og eru enn tvær útsendingar eftir! Aðeins tvö kvennalið mættu af þeim fjórum sem áttu að keppa þennan dag svo þau fóru sjálfkrafa áfram. Engin spenna og einfaldlega ekkert í gangi. Samtals verða þetta hátt í tíu klukkustundir í beinni útsendingu af efni sem enginn hefur áhuga á.

Vitleysan er ekki búin enn. Ef RÚV langaði svona mikið að sýna frá Futsal, hefði ekki verið upplagt að sýna fyrstu landsleiki Íslands í íþróttinni þegar brotið var blað í knattspyrnusögunni fyrr á árinu. Eða jafnvel frá úrslitaleik Reykjavíkurmótsins í fótbolta. Nei, þá er betra að sýna sparkmót skelþunnra framhaldsskólastráka.

Þetta er fótboltapistill á fótboltasíðu en ég fékk góðfúslegt leyfi frá Elvari Geir, ritstjóra síðunnar, til að tala aðeins um handbolta. Íþrótt sem RÚV reynir að sinna eftir bestu getu. Manni finnst alltaf að handboltamenn séu talandi um að það vanti leiki í sjónvarpið, lítið sé um beinar útsendingar og nær ekkert gert til að lokka mannskapinn inn í þessu risastóru hús okkar. Svarið er alltaf það sama og hefur verið í nokkur ár: „Ekki eru til peningar.“

Það voru samt til peningar til þess að sýna Futsal-mót framhaldsskólanna. Án gríns verð að viðurkenna ég næ ekki alveg hvað er í gangi þarna í Efstaleitinu. Einhverjum snillingi hefur tekist að tala RÚV inn á þessa vitleysu. Þar hefur einhver njólinn, eflaust með milljón á mánuði, tekið þá ákvörðun að keyra þetta í gang. Þess njóli hlýtur einfaldlega að hafa einhverja tengingu inn í þetta framhaldsskólabatterí. Fyrir mér er engin önnur skýring.
banner
banner
banner