fim 26. apríl 2012 07:00
Bjarni Ólafur Birkisson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ferðakostnaður landsbyggðarliðs
Bjarni Ólafur Birkisson
Bjarni Ólafur Birkisson
Bjarni Ólafur Birkisson.
Bjarni Ólafur Birkisson.
Mynd: Úr einkasafni
Mynd: Agl.is - Gunnar Gunnarsson
Jæja þá er maður búinn að panta flug fyrir sumarið fyrir kr. 5.900.000. Já 5,9 milljónir takk og þá eru ótaldir bílaleigubílarnir og rúturnar sem liðin okkar þrjú nota til ferðalaga þegar keppt er fyrir norðan og á Höfn. Ætli heildarkostnaðurinn sé ekki á milli 7 og 8 milljónir. Athugið að hér er aðeins verið að tala um meistaraflokka Fjarðabyggðar og 2. flokk enda heldur Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar aðeins utan um þessa flokka en yngri flokkar eru aðskildir.

Karlaliðið flýgur 8 ferðir, kvennaliðið 5 ferðir og 2. flokkur 4 ferðir sem gætu þess vegna verið 8 því 2. flokkur leikur 2 leiki í hverri ferð til að spara. Ekki alveg óskastaðan og ef allt væri eðlilegt færu þeir 8 ferðir og þá yrði flugkostnaður félagsins 7,3 milljónir.
Við höfum skoðað hinn möguleikann þ.e. að ferðast með rútu en að leigja rútu frá Fjarðabyggð til Reykjavíkur er nánast jafndýrt og að fljúga. Þar við bætist ca. 9 tíma ferðalag hvora leið með tilheyrandi vinnutapi fyrir leikmenn og gistikostnaði.

Ég þreytist seint á að vekja athygli á þessu ójöfnuði sem mörg landsbyggðarliðin búa við. Vísir að ferðajöfnunarsjóði varð til fyrir nokkrum árum þegar ríkið lagði ÍSÍ til peninga en sá sjóður dugar skammt en úr honum fáum við um 15% af greiddum ferðakostnaði árlega.

Við hjá Fjarðabyggð erum alveg búin að fá nóg og höfum herjað á KSÍ í gegnum tíðina sem í framhaldinu skorar á ríkið að setja meiri peninga í ferðajöfnunarsjóð ÍSÍ. Ekki hefur það skilað neinum árangri enn og því miður virðist lítill skilningur vera á þessu óréttlæti.

Fyrst ekkert gerist verðum við að bretta upp ermar og fá önnur félög á landsbyggðinni, sem eins er ástatt fyrir, í lið með okkur. Einnig þurfum við að fá sveitarfélögin okkar til að standa saman með okkur og vekja athygli á þessum ójöfnuði.

Vonandi leiðréttist þessi ójöfnuður með tíð og tíma því vonlaust er að starfrækja félag og hámarka árangur þess ef félagið byrjar alltaf hvert fjárhagsár með aukakostnað upp á 4-5 milljónir miðað við flest önnur félög.

Knattspyrnukveðja,
Bjarni Ólafur Birkisson
Formaður Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar
Athugasemdir
banner
banner