Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 22. september 2005 08:14
Guðjón Baldvinsson: Atvinnumennskan númer eitt
Baldvin Guðjónsson faðir Guðjóns tók á móti verðlaunum sonar síns á hófi Fótbolta.net í gær
Baldvin Guðjónsson faðir Guðjóns tók á móti verðlaunum sonar síns á hófi Fótbolta.net í gær
Guðjón Baldvinsson leikmaður Stjörnunnar fékk heldur betur uppreisn æru í gær þegar hann var kjörinn besti og efnilegasti leikmaður 2. deildar karla á Íslandi árið 2005. Í hófi sem Fótbolti.net var valið á Guðjóni kunngert en auk þess var hann að sjálfsögðu í liði ársins.

Guðjón er þegar farinn að þreifa fyrir sér í atvinnumennskunni en hann dvelst núna hjá Svissneska liðinu St. Gallen þar sem hann hefur verið í um vikutíma. Guðjóni leið frábærlega vel í Sviss þegar Fótbolti.net hafði samband við hann í gær og hann var að vonum sáttur með sumarið og uppskeru þess:

,,Já þetta var alveg meiriháttar gott sumar, ég er gríðarlega sáttur með árangurinn. Við komumst auðvitað upp og það verðskuldað. Leiknir og Stjarnan áttu bæði skilið að komast upp en sérstaklega Stjarnan!” sagði markakóngur deildarinnar.

Guðjón var lykilmaður í Stjörnuliðinu en hann skoraði fjórtán mörk í deildinni í sumar - Ekki slæmt fyrir 19 ára gamlan strák: ,,Já ég verða að játa að mér gekk ótrúlega vel í sumar. Það var líka frábært að koma aftur með svona góða endurkomu eftir að hafa misst af síðasta sumri vegna meiðsla og ég gæti ekki verið sáttari með árangurinn.”

Guðjón lenti í því að ökklabrotna á síðasta ári og var frá keppni í alls átta mánuði. En dugnaður hans var með eindæmum og hann náði fullkomnum bata en það gerðist alls ekki á sjálfum sér. Guðjón segir að árangur sinn í sumar hafi kannski ekki komið neitt sérstaklega á óvart og hann útskýrir af hverju það er þrátt fyrir að hafa verið frá í mánuðina átta:

,,Nei þetta kom mér kannski ekkert mjög á óvart hversu vel mér gekk. Ég lagði það á mig í allan vetur að æfa frjálsar íþróttir sem hjálpaði mér rosalega mikið. Ég lagði mikið á mig og maður uppskerir jú eins og maður sáir!” sagðu Guðjón – Svo sannarlega orð með réttu.
Eins og áður sagði dvelst Guðjón nú hjá St. Gallen í Sviss og honum líkar lífið vel: ,,Þetta er alveg meiriháttar klúbbur. Það er reyndar rosalega mikið að gera hjá þeim þessa dagana og þeir eru að spila mjög mikið. Ég get því miður ekki fengið að sýna mig í neinum æfingaleik þar sem það er einfaldlega ekki tími til að setja hann á vegna álags á leikmennina. En í staðinn erum við á æfingum sem eru virkileg erfiðar og það tekur mjög mikið á.”

En hvernig kom til að Guðjón fór úr Garðarbænum og yfir í Svissnesku alpana? ,,Það var Lárus Guðmundsson þjálfari 2. flokks Stjörnunnar sem kom þessu í kring. Hann var auðvitað atvinnumaður og þekkir mikið af góðu fólki í Þýskalandi, Sviss og Belgíu. Hann ákvað að leyfa mér að fara út og prófa að æfa hérna þar sem ég stóð mig svo vel í sumar. Ég var líka hjá Genk í Belgíu og það gekk raunar mjög vel þar. Þjálfarinn vildi aftur á móti bara fá leikmenn sem “voru tilbúnir” og ég er það kannski ekki alveg ennþá.”
Guðjón er raunsær og hugsar fyrst og fremst um framtíðina. ,,Það er alltaf eitthvað í gangi og eitthvað að koma uppá. En þetta hérna í Sviss fer bara beint í reynslubankann og ég stefni bara á það að nýta mér þetta sem best. Ég dreymi auðvitað eins og alla aðra um atvinnumennsku, það er það eina sem maður stefnir á!

Ég hefði tvímælalaust áhuga á því að skrifa undir hér hjá St. Gallen. Þetta er frábær staður og aðstæður eru allar eins og best verður á kosið og fólkið er mjög almennilegt. Ég hef kannski ekki náð að standa mig sem skildi enda hef ég bara verið á æfingum og það mjög erfiðum en maður vonar auðvitað það besta bara.”


Árangur Guðjóns hefur vakið verðskuldaða athygli en aðspurður um áhuga liða á Íslandi á sér segist Guðjón bara áhuga á því að vera í Garðabænum: ,,Það hefur verið einhver áhugi en alls ekkert sem fær mig til að fara frá Stjörnunni. Stjarnan er minn klúbbur og mér líður mjög vel þar.”

Markmið Guðjóns eru skýr - Atvinnumennskan: ,,Ég stefni núna á að gera allt sem ég get til að hjálpa Stjörnunni í 1. deildinni og klára það en svo er það atvinnumennskan sem er alltaf númer eitt.” sagði Guðjón.

Fótbolti.net þakkar Guðjóni fyrir spjallið og hlakkar svo sannarlega til að sjá þennan frábæra leikmann í atvinnumennskunni í framtíðinni – Ljóst er að ekki verður langt til þess að bíða.
Athugasemdir
banner
banner
banner