Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 30. júní 2009 12:51
Hafliði Breiðfjörð
Margrét Lára Viðarsdóttir til Kristianstad (Staðfest)
Margrét Lára í leik með íslenska landsliðinu.
Margrét Lára í leik með íslenska landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðskonan Margrét Lára Viðarsdóttir er hætt hjá sænska félaginu Linköping og gengur nú í raðir Kristianstad í sama landi út tímabilið. Hjá Kristianstad hittir hún fyrir Elísabetu Gunnarsdóttur fyrrverandi þjálfara sinn hjá Val og þrjá aðra íslenska leikmenn.

Margrét Lára fór til Linköping frá Val í vetur en hefur ekki náð að festa sig í sessi í byrjunarliðinu. Hún hefur því ákveðið að söðla um í von um að fá að spila meira fyrir Evrópumót landsliða í Finnlandi. Hún byrjaði aðeins í fjórum af 13 leikjum liðsins í sænsku deildinni og af þeim var henni skipt af velli í þremur. Hún skoraði tvö mörk í þessum leikjum.

Margrét Lára Viðarsdóttir er 23 ára gömul. Hún hóf feril sinn með uppeldisfélagi sínu ÍBV en lék með Val undanfarnar fjórar leiktíðir og var markahæsti leikmaður deildarinnar öll þau ár eins og síðasta árið í ÍBV, 2004, 2005, 2006, 2007 og 2008 og skorað 127 mörk í 62 deildarleikjum á þeim tíma. Samtals hefur nú skorað 175 mörk í 102 leik í efstu deild hér á landi.

Hjá Kristianstad hittir hún fyrir auk Elísabetar þær Hólmfríði Magnúsdóttur, Erlu Steinu Arnardóttur og Guðnýju Björku Óðinsdóttur liðsfélaga sína í íslenska landsliðinu.

Hennar fyrsti leikur með Kristianstad verður gegn Íslendingaliði Djurgården á föstudagkvöld en með þeim leika Guðbjörg Gunnarsdóttir og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner