Ítalska félagið Napoli hefur samþykkt að lána nígeríska sóknarmanninn Victor Osimhen til tyrkneska félagsins Galatasaray út leiktíðina.
Chelsea, PSG og Al-Ahli voru öll í baráttunni um Osimhen í síðasta mánuði.
PSG dró sig úr baráttunni eftir erfiðar viðræður við Napoli, en þá var Osimhen ekki tilbúinn að taka á sig launalækkun til að ganga í raðir Chelsea. Al-Ahli var tilbúið að greiða rétt kaupverð og laun Osimhen, en það tók framherjann of langan tíma að taka ákvörðun með framtíðina og ákvað félagið því að sækja Ivan Toney frá Brentford.
Vonbrigði fyrir Osimhen, sem hafði tjáð stjórn Napoli fyrr í sumar að hann vildi ekki vera áfram hjá félaginu.
Möguleikarnir voru ekki margir fyrir Osimhen eftir gluggalokin í stóru deildunum en hann getur enn farið til Tyrklands þar sem glugginn þar lokar ekki fyrr en 13. september.
Galatasaray hugsar sér gott til glóðarinnar og hefur nú lagt fram lánstilboð í leikmanninn sem Napoli hefur samþykkt.
Leikmaðurinn er sagður opinn fyrir því að fara til Galatasaray en ekkert kaupákvæði verður í lánssamningnum.
Osimhen á ekki afturkvæmt í hóp Napoli og er framherjinn því með það bakvið eyrað að ef hann finnur sér ekki nýtt félag á næstu dögum mun hann þurfa að sitja upp í stúku fram að næsta glugga.
Athugasemdir