mið 03. október 2018 22:27
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Di Marzio: Naby Keita fór í hjartaskoðun
Mynd: Getty Images
Naby Keita, miðjumaður Liverpool, fór meiddur af velli gegn Napoli í Meistaradeildinni í kvöld.

Liverpool tapaði leiknum 1-0 en sigurmark Napoli skoraði Lorenzo Insigne undir lok leiksins.

Keita fór af velli í fyrri hálfleik, hann var borinn af velli og inn á í hans stað kom fyrirliðinn Jordan Henderson. Keita hafði komið inn í liðið fyrir Henderson.

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, sagði eftir leikinn að það væru bakmeiðsli sem væru að hrjá Keita, en hinn virti ítalski íþróttafréttamaður, Gianluca Di Marzio, sagði frá því að hinn 23 ára gamli Keita hefði verið fluttur á spítala í hjartaskoðun. Engin vandamál hefðu fundist.

Það er óvíst um alvarleika meiðslanna á þessari stundu en Liverpool leikur við Manchester City í toppslag í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag.



Athugasemdir
banner
banner
banner