Valur hefur staðfest söluna á Tómasi Bent Magnússyni til Hearts í Skotlandi en Hlíðarendafélagið tilkynnti þetta á heimasvæði sínu á Facebook í dag.
Valsmenn samþykktu tilboð Hearts í lok síðasta mánaðar og hélt hann til Skotlands til að ganga frá sínum málum.
Tómas er 23 ára gamall miðjumaður sem kom til Vals frá ÍBV fyrir tímabilið og verið í algeru lykilhlutverki.
Nú hefur salan á Tómasi verið staðfest og mun Hearts væntanlega tilkynna kaupin á næstu tímum.
„Líkt og við höfum sagt þá er engin óskastaða að selja frá okkur lykilmann en þegar svona tækifæri koma upp þá styðjum við auðvitað okkar mann í því. Við fengum ásættanlega upphæð og Tómas stökk að sjálfsögðu á það að fara í skosku úrvalsdeildina. Við þökkum honum fyrir sitt frábæra framlag til félagsins og erum sannfærðir um að hann muni standa sig vel á nýjum stað.“
„Tómas er gott dæmi um leikmann sem kom til okkar og greip tækifærið. Tækifærin eru svo sannarlega í boði hjá okkur að Hlíðarenda og þegar menn leggja á sig og vita hvert þeir vilja komast þá gerast góðir hlutir. Við erum í toppbaráttu í deildinni og komnir í Bikarúrslit þannig það er nóg af krefjandi leikjum framundan. Við erum að fá leikmenn til baka úr meiðslum og hvetjum Valsmenn áfram til þess að fjölmenna á völlinn og styðja strákanna,“ segir Björn Steinar Jónsson formaður stjórnar knattspyrnudeildar.
Hearts hafnaði í 7. sæti skosku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og verður hann fjórði Íslendingurinn til að spila fyrir félagið á eftir Eggerti Gunnþór Jónssyni, Haraldi Björnssyni og Hjálmari Þórarinssyni.
Athugasemdir