Man Utd ætlar að bjóða Calvert-Lewin samning - Al Nassr á eftir Rodrygo - Chelsea fylgist með stöðu Nwaneri
   sun 06. júlí 2025 10:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Thun
„Ég er ekki að fara að segja þér leikplanið"
Icelandair
EM KVK 2025
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingibjörg Sigurðardóttir.
Ingibjörg Sigurðardóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr síðasta leik gegn Sviss.
Úr síðasta leik gegn Sviss.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Frá Stadium Wankdorf.
Frá Stadium Wankdorf.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Eftir tapið um daginn, þá erum við að sjálfsögðu komin með bakið upp við vegg og þurfum að vinna," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, er hann spjallaði við fréttamenn í gær.

Í kvöld fer fram annar leikur Íslands á Evrópumótinu er stelpurnar okkar mæta heimakonum í Sviss.

Fyrsti leikurinn hjá Íslandi endaði með 1-0 tapi en stelpurnar eru búnar að setja þann leik í baksýnisspegilinn.

„Við áttum mjög góðan fund um þennan leik þar sem við töluðum um það hvernig okkur leið í leiknum og hvernig við upplifðum hann. Mér fannst við ná að fókusa á réttu hlutina eftir það og mjög fljótt fórum við að einbeita okkur að leiknum á morgun (í kvöld). Ég held að það hafi hjálpað liðinu og leikmönnum andlega að fara frá Finnlandsleiknum yfir á næsta leik. Ég held að staðan sé mjög góð á hópnum," sagði Ingibjörg Sigurðardóttir á fundinum í gær.

Þurfum að vera tilbúin í alvöru læti
Svissneska liðið er öðruvísi en það finnska, en við þekkjum það vel eftir að hafa mætt því tvisvar í Þjóðadeildinni fyrr á þessu ári.

„Þær eru ákafar og keyra á þig. Það er mikil vinnusemi í liðinu. Þær eru með mjög skýrt leikplan og fara vel eftir því. Þær eru flott lið og með góða leikmenn. Það er mikil hlaupageta í liðinu og við þurfum að vera tilbúin í alvöru læti á móti þeim ef þær ætla að vera eins agressívar og gegn Noregi. Við erum vonandi búin að finna veikleika sem við getum notað okkur," sagði Þorsteinn.

„Ég er bara sammála Steina, bara mjög góð greining," sagði Ingibjörg og brosti.

Sviss spilar 5-3-2 kerfið og var Steini spurður að því hvort við þyrftum eitthvað að aðlaga okkur að því.

„Nei, í sjálfu sér ekki. Ég er ekki að fara að segja þér leikplanið," sagði Steini og hló.

Við erum ekki hrædd
Leikurinn á morgun fer fram á Wankdorf Stadium í Bern þar sem Young Boys, eitt stærsta félagið hér í landi, spilar heimaleiki sína. Leikvangurinn er með pláss fyrir um 32 þúsund manns og má búast við því að Svisslendingar fjölmenni og láti vel í sér heyra. Það er búist við um 2000 Íslendingum á leiknum.

„Andrúmsloftið á okkar fyrsta leik var frekar gott. Við heyrðum mikið í okkar stuðningsmönnum," sagði Þorsteinn á fundinum er hann var spurður út í andrúmsloftið á morgun af svissneskum blaðamanni.

„Við erum ekki hrædd að spila fyrir framan fleira fólk en var á okkar velli. Ef þú spilar á stórum velli, þá þarftu að njóta þess. Þú mátt ekki vera hræddur við stuðningsmennina hjá hinu liðinu. Þú þarft að sækja orku í stuðningsmennina og njóta þess að spila fyrir framan þá."

Allt undir
Eftir tapið gegn Finnlandi í fyrsta leik, þá er allt undir fyrir íslenska liðið á morgun. Við þurfum eiginlega bara sigur til þess að geta örugglega verið með örlögin í okkar höndum áfram.

Ég er ekki sammála því endilega að Noregur sé besta liðið í riðlinum. Sviss er virkilega gott lið líka. Við þurfum að fara inn í þennan leik og sækja sigur. Það er erfitt að fara að treysta á það að ná jafntefli og treysta á önnur úrslit," sagði Steini og bætti við:

„Við getum sagt það hreint út að við erum með bakið upp við vegg og þurfum að spyrna okkur frá; við ætlum að sækja til sigurs á morgun."

„Við erum mjög peppaðar í þennan leik," sagði Ingibjörg. „Það er líka gaman að sjá völlinn, hann er mjög flottur. Við vildum ná í sigurinn gegn þeim í Þjóðadeildinni og erum í smá hefndarhug út af því. Við ætlum að sækja þennan sigur."

En er þetta 50/50 leikur á morgun?

„,Já, örugglega. Það má túlka það þannig. Miðað við síðustu tvo leiki getum við sagt að þetta sé 50/50. Þetta verður hörkuleikur. Bæði liðin eru í sömu stöðu og eru ekki að fara að spila upp á jafntefli. Ég held að þetta hljóti að verða hörkuleikur og alveg strembinn fyrir bæði lið. Sviss þarf að leggja allt í sölurnar til að vinna þennan leik þar sem þær eru í nákvæmlega sömu stöðu og við. Þetta er úrslitaleikur sem bæði lið fara inn í á sömu forsendum," sagði Steini í lok fundarins.
Athugasemdir
banner