
Ásta B. Gunnlaugsdóttir, ein af brautryðjendum íslenska kvennalandsliðsins, er að sjálfsögðu mætt til Sviss til að styðja íslenska landsliðið á Evrópumótinu í fótbolta. Hún er spennt fyrir leik kvöldsins.
„Þetta er bara geggjað. Við vonum bara að við fáum betri leik í dag en síðast," segir Ásta við Fótbolta.net.
„Þetta er bara geggjað. Við vonum bara að við fáum betri leik í dag en síðast," segir Ásta við Fótbolta.net.
„Mér finnst stemningin rosalega góð hjá okkar stuðningsfólki. Ég efa það ekki að stelpurnar læri af fyrsta leik, við lærum af mistökunum."
Hvernig er að sjá alla stemninguna í kringum íslenska liðið?
„Maður þarf eiginlega bara að klípa sig. Ég hef upplifað svona áður og það er alltaf gaman þegar Íslendingar koma og hvetja sitt fólk," segir Ásta.
Hvernig líst þér á þessa leikmenn sem eru að koma upp núna eins og til dæmis Karólínu og Sveindísi?
„Þetta eru bara heimsklassa leikmenn og þetta eru svo miklar fyrirmyndir. Við erum með mömmur í liðinu og stelpur sem eru að spila við þær bestu, og eru bara með þeim bestu. Þær eru bara bestar. Við erum með íþróttamann ársins á Íslandi í liðinu. Hvað er hægt að biðja um meira?"
„Ég er svo stolt, ég gæti ekki verið stoltari þótt ég ætti þær allar," sagði Ásta og hló.
Svo gaman að einhver vildi segja þessa sögu
Ásta var í aðalhlutverki í þáttunum Systraslag á RÚV fyrir mót þar sem farið var yfir sögu íslenska kvennalandsliðsins. Ásta er algjör goðsögn og ein af brautryðjendunum í kvennalandsliðinu.
„Ég var sjálf dolfallin yfir þáttunum. Mér fannst svo gaman að það vildi einhver segja þessa sögu. Þau sem gerðu þessa þætti eiga svo miklar þakkir skilið. Það er svo gott fyrir alla að vita að það er ekkert sjálfsagt í þessum heimi," sagði Ásta.
Það hefur mikið þurft að gerast svo við séum á þessum stað, á þessu frábæra Evrópumóti.
„Ekkert smá. Ég bíð bara eftir því að barnabörnin verði komin í landsliðið," sagði Ásta og brosti.
Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir