Gonzalo Garcia er nafn sem lesendur ættu að leggja á minnið, en hann hefur farið hamförum með Real Madrid á HM félagsliða og hefur þegar verið kallaður hinn nýi Raúl.
Garcia er 21 árs gamall sóknarmaður en hann getur einnig leikið fyrir aftan framherja og er með alla helstu eiginleika til þess að verða að stórstjörnu í framtíðinni.
Framherjinn er uppalinn hjá Real Madrid en hefur þurft að bíða þolinmóður eftir tækifærinu.
Hann átti sitt besta tímabil með varaliði Madrídinga á síðustu leiktíð er hann skoraði 25 mörk og bætti um leið met sem var áður í eigu Mariano Diaz.
Síðustu tvö tímabil hefur Garcia fengið fáeinar mínútur með aðalliðinu og skoraði meðal annars sigurmarkið í 3-2 sigri á Leganes í 8-liða úrslitum spænska konungsbikarsins á síðustu leiktíð, en hann náði loksins að brjóta sér leið inn í liðið í sumar.
Madrídingar hafa verið í leit að 'níu' síðan Joselu yfirgaf félagið á síðasta ári og er nú útlit fyrir að hún sé fundin.
HM félagsliða er ágætis svið fyrir félög til þess að leyfa ungum og efnilegum leikmönnum að taka skrefið inn í hópinn og óhætt að segja að Garcia hafi nýtt það tækifæri til fulls.
Garcia hefur verið aðalmaður Real Madrid í keppninni og er markahæstur með fjögur mörk ásamt Angel Di María, Serhou Guirassy og Marco Leonardo, en hinir þrír eru úr leik og á hann því góðan möguleika á að eigna sér gullskóinn.
Upphaflega átti Garcia ekkert að koma mikið við sögu á mótinu, en veikindi franska sóknarmannsins Kylian Mbappe þýddi að Xabi Alonso var tilneyddur til þess að nota krafta Garcia, eitthvað sem hann sér ekki eftir að hafa gert.
„Ég vissi margt um Gonzalo því ég fylgist mikið með varaliði Real Madrid. Það sem hann hefur verið að gera kemur mér ekkert á óvart og á marga vegu minnir hann mig á Raúl,“ sagði Alonso á blaðamannafundi.
Raúl skoraði 323 mörk í 741 leik með Real Madrid og vann allt sem hægt er að vinna með liðinu. Hann spilaði oftast sem fremsti maður en gat einnig leikið fyrir aftan framherja. Raúl er fremur lágvaxinn, skapandi og vinnusamur leikmaður sem var markaskorari af guðs náð.
Garcia á margt sameiginlegt með honum. Hann hefur þessa sýn, sköpunargáfu og vinnusemi, og er einkar laginn við að klára færi, hvort sem það sé fyrir utan eða í teignum.
Samanburðinn við Raúl ætti svo sem ekkert að koma á óvart sem spænska goðsögnin þjálfaði Garcia í varaliði Real Madrid, sem hefur reynst góður skóli fyrir framherjann.
„Þessi samanburður er augljóslega svakalegt hrós, en við skulum samt hafa það á hreinu að Raúl er goðsögn hjá Real Madrid. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að deila búningsklefa með honum sem þjálfara á síðustu tveimur árum og hann hefur kennt mér margt,“ sagði Garcia á dögunum um samanburðinn við Raúl.
Garcia klæddist einnig treyju númer 7 í varaliðinu, eins og Raúl gerði á ferli sínum.
Samkvæmt spænsku miðlunum er það frágengið að Garcia verði hluti af aðalliðinu á komandi leiktíð og mun létta mikið undir með Mbappe.
Þetta setur hins vegar framtíð brasilíska undrabarnsins Endrick í óvissu. Endrick var fenginn á síðasta ári, en fékk fáar mínútur til að sanna sig undir Ancelotti og nýtti þær illa.
Í sumar hefur hann verið að glíma við meiðsli og því ekki getað sýnt Alonso ágæti sitt.
Endrick var framtíðin en nú er spurning hvort það hafi eitthvað breyst með óvæntri innkomu Garcia.
Athugasemdir