Tilboðum í Maguire hafnað - Sesko velur Old Trafford - Villa búið að ná samkomulagi um Guessand
   mið 06. ágúst 2025 12:19
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Líkt og Víkingur Ólafsvík væri á toppnum á Íslandi
Mjällby er á toppnum í sænsku úrvalsdeildinni.
Mjällby er á toppnum í sænsku úrvalsdeildinni.
Mynd: Mjällby
Guðmundur Baldvin á æfingu með Mjällby.
Guðmundur Baldvin á æfingu með Mjällby.
Mynd: Mjällby
Frá Ólafsvík.
Frá Ólafsvík.
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson
Gísli Eyjólfsson er fyrrum leikmaður Mjällby.
Gísli Eyjólfsson er fyrrum leikmaður Mjällby.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mjällby fagnar marki á þessu tímabili.
Mjällby fagnar marki á þessu tímabili.
Mynd: Skjáskot - Youtube
Það eru ótrúlegir hlutir að gerast í sænska boltanum því Mjällby er á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar þegar 18 umferðir af 30 eru búnar. Mjällby er með fjögurra stiga forskot á Hammarby sem er í öðru sæti deildarinnar.

Þetta er magnað afrek þar sem Mjällby er 86 ára gamalt félag og stærsta afrek þess er að enda í öðru sæti sænska bikarsins 2023. Það eru bara sjö ár síðan liðið var í C-deild en félagið kemur frá Hällevik sem er um 1000 manna bær, eða rétt tæplega það. Þegar maður horfir í það á Mjällby varla að vera í sænsku úrvalsdeildinni, hvað þá á toppnum.

„Ég sá ekki fyrir að þeir yrðu á toppnum en maður sá alveg einhverja velgengni í kortunum. Það kom inn nýr aðstoðarþjálfari 2024 og leikmenn og með því fannst mér koma inn öðruvísi áherslur," segir Guðmundur Baldvin Nökkvason, leikmaður Stjörnunnar, í samtali við Fótbolta.net í dag. Gummi var keyptur til Mjällby sumarið 2023 og lék með liðinu í stuttan tíma. Hann er núna kominn aftur til Stjörnunnar en fékk að kynnast þessu áhugaverða félagi og samfélaginu í kringum það.

„Þeir fóru að spila meiri bolta og fóru strax að uppskera. Þeir voru nálægt því að ná Evrópusæti í fyrra og hafa byggt vel ofan á þann grunn," segir Gummi.

Norskur aðstoðarþjálfari breytt miklu
Anders Torstensson er aðalþjálfari Mjällby og hefur stýrt liðinu frá 2023. Hann var þjálfari þegar Gummi kom til félagsins frá Stjörnunni og vill spila fótbolta sem hefur einkennt Mjällby í fjöldamörg ár.

„Þetta er fínn þjálfari en þegar ég fór út var hann mikið að spila langt og hátt, treysta á föst leikatriði. Þeir halda enn alveg í það," segir Gummi og heldur áfram.

„En þeir eru með norskan aðstoðarþjálfara sem er meiri nútímaþjálfari. Ég held að hann sé mikið heilinn á bak við þetta. Þeir eru ólíkir og vega hvorn annan vel upp."

Norski aðstoðarþjálfarinn heitir Karl Marius Aksum og hafði aldrei þjálfað í aðalliðsfótbolta áður en hann var ráðinn til Mjällby í fyrra. Hann náði hins vegar að sannfæra Torstensson og þeir hafa unnið frábærlega saman. Aksum er mikill hugsuður en hann er með doktorsgráðu í sjónrænni skynjun í fótbolta með sérstaka áherslu á skönnun, sem vísar höfuðhreyfinga sem leikmenn gera áður en þeir taka við boltanum til að safna upplýsingum úr umhverfi sínu - sjá leikinn betur. Aksum hefur unnið með leikmönnum í þessari skönnun til að gera þá að betri sendingarmönnum og betri leikmönnum bæði varnar- og sóknarlega.

Sóknarleikur Mjällby hefur batnað til muna en þeir eru besta sóknarlið sænsku úrvalsdeildarinnar með 35 mörk skoruð í 18 leikjum. Þeir hafa aðeins tapað einum leik á öllu tímabilinu.

Urðu næstum því gjaldþrota
Mjällby er langt frá því að vera stærsta félagið í Svíþjóð en ef við spólum aftur til baka til ársins 2016 var félagið í C-deild og nálægt gjaldþroti. Það vakti menn. Félagið réðst í breytingar eftir það ár sem hafa heldur betur virkað vel. Það er vel hugsað um aurinn innan Mjällby en félagið er að ná mögnuðum árangri með eitt lægsta fjármagnið í sænsku deildinni.

Mjällby hefur lagt áherslu á að þróa unga leikmenn, skynsöm kaup og góða þjálfun. Félagið hefur svo selt leikmenn til að gera félagið sterkara fjárhagslega á sama tíma og það er að ná góðum úrslitum innan vallar. Þetta er ekki auðvelt en það er hægt ef stórkostlega er haldið utan um hlutina.

„Það er gaman að sjá þessa leikmenn standa sig svona vel. Þeir sem eru lykilmenn þarna eru kannski helst Elliot Stroud sem er vinstri vængbakvörður og markvörðurinn Noel Törnqvist. Þeir eru báðir fæddir 2002," segir Gummi Baldvin en báðir komu þeir frá litlum félögum í neðri deildum Svíþjóðar.

„Þeir hafa líka selt stóra pósta frá því ég var þarna til Djurgården, Malmö og Nordsjælland."

Nýtt fyrir allt samfélagið
Það sem gerir þennan árangur svo ótrúlegan er bæjarfélagið sem Mjällby kemur frá. Þetta er sveitasamfélag þar sem allir þekkja alla. Þarna er ein verslun og mikið af dýrum. Þarna á ekki að vera félag sem er á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar, en það er samt raunin.

„Þetta er svolítið bara út í sveit. Það er mjög rólegt þarna og vinalegt umhverfi. Það þekkja flestir hvorn annan þarna. Þetta er sveitalegt á sænskum mælikvarða," segir Gummi en er hægt að líkja þessu við eitthvað á Íslandi?

„Áður en ég fór þá hringdi ég í Gísla Eyjólfs og hann myndi líkja þessu við Ólafsvík."

Víkingur Ólafsvík er í 2. deild og hefur verið þar síðustu ár. Það er þó ekki mjög langt síðan liðið var í efstu deild en þó aldrei nálægt toppnum.

Gummi er einn af sex íslenskum leikmönnum sem hafa spilað með Mjällby en hinir eru Gísli Eyjólfs, Óttar Magnús Karlsson, Óskar Sverrisson, Guðmann Þórisson og Hannes Þ. Sigurðsson. Aðeins þrjú önnur lönd - fyrir utan Svíþjóð - hafa átt fleiri fulltrúa hjá Mjällby en Ísland.

„Þeir hafa aldrei náð Evrópusæti áður. Þetta er nýtt fyrir öllu samfélaginu. Þeir eru að setja nýtt met þar sem 1200 stuðningsmenn Mjällby ætla á útileik gegn Malmö sem er þeirra besta mæting á útivöll frá upphafi. Það eru 1200 manns sem er fáránlega lítið á sænskum mælikvarða," segir Gummi.

En getur Mjällby unnið sænsku deildina?

„Ég held að þeir geti það örugglega. Þeir eru helvíti seigir," sagði Stjörnumaðurinn að lokum en það yrði ótrúlega skemmtilegt ef Mjällby myndi fullkomna ævintýrið og vinna sænsku úrvalsdeildina. Þetta á ekki að vera hægt en það er það fallega við fótboltann, að svona geti gerst ef vel er haldið á spöðunum.
Athugasemdir
banner
banner