„Tilfinningin er eiginlega ólýsanleg, ég er ennþá að ná mér niður eins og er, en ég er bara í skýjunum," sagði Helgi Guðjónsson leikmaður Víkings efir 2-0 sigur gegn FH í kvöld, en sigurinn tryggði Víking Íslandsmeistara titilinn.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 0 FH
Það eru enn tvær umferðir eftir en Víkingar eru búnir að tryggja sér titilinn, þeir fá þá góða pásu til að fagna titlinum.
„Það var það sem við stefndum á. Þá getum við farið mjög slakir inn í landsleikja hlé og fengið kannski aðeins meira frí. Svo bara reyna að vinna síðustu tvo leikmenn fyrir þessa stuðningsmenn hérna. Við verðum að gera það," sagði Helgi.
Það voru rúmlega 2000 manns á vellinum í kvöld og stuðningurinn var til fyrirmyndar.
„Þetta var geðveikt, þetta eru hundrað prósent bestu stuðningsmenn á landinu. Þeir eiga svo mikið í þessu hjá okkur öll þessi ár, ég elska að spila fyrir þetta fólk," sagði Helgi.
Helgi skoraði seinna mark Víkinga sem batt enda á leikinn. Hann fagnaði markinu mikið, enda stór stund.
„Þetta var vissulega mjög skemmtilegt, aðeins skemmtilegra en önnur mörk kannski. Maður missti aðeins stjórn á sér í smá stund," sagði Helgi.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.