„Þetta var markmiðið í allan vetur og allt sumar. Mikill léttir, mikil ánægja og gott að ná að klára þetta fyrir síðustu tvo leikina," sagði Gylfi Þór Sigurðsson leikmaður Víkings eftir 2-0 sigur gegn FH, en sigurinn tryggði Víking Íslandsmeistara titilinn.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 0 FH
Víkingar gengu í gegnum erfiða kafla á tímabilinu en þrátt fyrir það þá vinna þeir deildina með stæl, þar sem tvær umferðir eru enn eftir af tímabilinu.
„Við vorum í fyrsta eða öðru sæti framan af móti, en vorum kannski ekki að spila upp á okkar besta. Við vorum að vinna leiki en vorum bara 'solid' og gerðum það sem við þurftum til að vinna leiki. Það var smá hringl á hópnum, menn meiddir og kannski aðeins að finna ryþmann og rétta uppstillingu á liðinu. Við vissum það, að ef við myndum halda okkur í kringum toppinn og toppa á réttum tíma sem var alltaf markmiðið. Þá mynum við klára þetta," sagði Gylfi.
Þetta er fyrsti titill Gylfa á hans frábæra ferli, þrátt fyrir að hafa spilað fyrir stór lið í stærstu fótbolta þjóðum Evrópu.
„Ég er ennþá ungur," segir Gylfi með bros á vör. „Þetta var bara markmiðið allt þetta tímabil, og bara síðan ég kom heim að vinna deildina. Auðvitað gríðarlega ánægja og bara léttir eftir alla vinnuna, alla leikina og allar æfingarnar sem voru í sumar og í vetur," sagði Gylfi.
Gylfi skipti frá Val yfir í Víking fyrir þetta tímabil, og þessi skipti reyndust ganga vel þar sem titillinn kom í kvöld.
„Auðvitað hefði þetta ekki litið vel út ef við hefðum ekki unnið deildina," sagði Gylfi og hló. „Ég er ekkert hræddur að taka svona ákvarðanir og elta hjartað, eða það sem maga tilfinningin segir mér. Ég er bara himinlifandi að hafa tekið þá ákvörðun og vera hérna í Víkinni í dag," sagði Gylfi.
Gylfi var ekki valinn í landsliðið fyrir þennan landsliðs glugga þar sem Ísland mætir Frakklandi og Úkraínu.
„Ég var lítið sem ekkert meiddur í allt sumar, ég held það voru einn eða tveir leikir sem við tókum smá séns á, það var þegar ég var bara smá stífur. Mér líður bara frábærlega, fann mig betur í stöðunni sem ég var að spila seinni hlutann á tímabilinu. Maður veit ekki hvað gerist með framtíðina, vonandi endar það vel," sagði Gylfi.
Arnar Gunnlaugsson þjálfari landsliðsins er auðvita fyrrverandi þjálfari Víkings og því þekkja núverandi þjálfarar Gylfa hann vel. Gylfi var spurður hvort að Sölvi og Kári gætu ekki bara komið honum inn í landsliðið.
„Ég kannski fæ þá til að kippa í nokkra spotta," sagði Gylfi með bros á vör.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.